Innanríkisráðherra fullyrti aftur á Alþingi fyrir stundu að hluti af þeim upplýsingum sem láku um mál Tony Omos séu ekki til í ráðuneytinu. Hún geti ekki upplýst um málið, því hún viti ekki hvernig upplýsingarnar fóru. Málið sé meira en bara pólitískur spuni, það sé ljótur, pólitískur leikur.
„Ég hef aldrei sagt þingheimi ósatt, hvorki um þetta mál eða annað,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi.
Hún sagði að hluti gagnanna sem lekið var í fjölmiðla sé „ekki í samræmi við nein gögn í ráðuneytinu og er afar meiðandi niðurstaða í gagni sem var til dreifingar hjá bloggurum í landinu, en er ekki frá ráðuneytinu komið.“
Hún geti ekki upplýst um hvernig það kom til, enda viti hún það ekki. „Ég get ekki farið að búa til einhverja sögu um hvernig þetta gerðist.“
Bjarkey Gunnarsdóttir þingkona Vinstri grænna lagði fyrirspurn um lekamálið fyrir innanríkisráðherra og spurði hvernig hún gæti ítrekað að hún standi við allt sem hún hefur áður sagt um málið.
Bjarkey sagði ömurlegt að halda því fram að málið sé pólitískur spuni og sagðist velta því fyrir sér hvort ekki væri ástæða fyrir Hönnu Birnu að biðja afsökunar þá aðila sem hún hafi dregið inn í málið, með því að ýja að því að upplýsingarnar hefðu getað lekið frá stofnunum eins og Rauða krossinum eða Útlendingastofnun.
Bjarkey hvatti þá sem láku umræddu skjali til þess að gefa sig fram og leysa þannig samstarfsfólk sitt úr snörunni.
Hanna Birna hóf mál sitt á því að ítreka að rannsókn lekans væri ekki lokið og að svo stöddu geti enginn fullyrt að starfsmenn innanríkisráðuneytisins hafi stundað refsiverða háttsemi.
„Ég árétta það sem ég hef áður sagt um þetta mál, það er orðið flókið og snúið. Menn geta reynt að halda því fram að hér sé ekki á ferðinni pólitískur spuni. Ég er þeirrar skoðunar að það sé búið að vera þannig lengi,“ sagði Hanna Birna og bætti við:
„ Ég er reyndar þeirrar skoðunar, en mun ekki úttala mig um það fyrr en rannsókn er lokið, að þetta sé meira en bara pólitískur spuni, þetta sé talsvfert ljótur pólitísur leikur. Því málið snýst miklu meira um þann sem hér stendur, en þann sem málið fjallar um, sem er umræddur hælisleitandi.“
Hún sagði ekki hægt að halda því fram að minnisblöð um hælisleitendur séu óeðlileg, alvanalegt sé að taka saman slíkar upplýsingar. Farið hafi verið yfir það í ráðuneytinu hvort blaðið hafi lekið þaðan.
„Við fundum þess ekki stað, en finnum við þess stað að gagnið hafi með óeðlilegum hætti farið út úr ráðuneytinu þá að sjálfsögðu bregðumst við við því.“ Hún sagðist aldrei hafa bent á neinn annan í þessu máli, heldur útskýrt fyrir þingheimi hvað svona samantektir væru.