Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra sagði á Alþingi á dag að tvenn gögn séu í umferð í máli hælisleitandans Tony Omos. Annars vegar frá ráðuneytinu og hitt þar sem búið væri að bæta við hlutum sem ráðuneytið kannist ekki við og geti ekki tekið ábyrgð á.
„Í því felast meiðandi ummæli, gagnvart umræddum aðila, og ráðuneytið getur ekki tekið ábyrgð á því,“ sagði Hanna Birna í óundirbúnum fyrirspurnartíma við upphaf þingfundar.
Hún sagði að það væri þetta sem hún hefði verið að vísa í þegar lekamálið var rætt á Alþingi.
„Það sem ég útskýrði hér og sagði að væri ekki í samræmi við nein gögn í ráðuneytinu er afar meiðandi niðurstaða í gagni sem var til dreifingar hjá bloggurum í landinu, en er ekki frá innanríkisráðuneytinu komið,“ sagði Hanna Birna.
„Ég get ekki svarað því hver skrifaði þann texta, hann var ekki skrifaður í innanríkisráðuneytinu. Ég hef hinsvegar aldrei neitað því að samantektir um hælisleitendur væru skrifaðar í ráðuneytinu, hvernig slíkar samantektir væru byggðar frá undirstofnunum. Í því fólst engin ásökun í garð eins eða neins.“
Hanna Birna sagðist taka málið mjög alvarlega, það sama ætti við um starfsmenn innanríkisráðuneytisins. „Við fögnum rannsókn og vildum gjarnan fá svör við því sem við getum ekki veitt svör við [...] Ef rannsókn leiðir í ljós að eitthvað hafi gerst í ráðuneytinu sem ekki er í lagi, að kerfið hafi með einhverjum hætti brugðist, þá að sjálfsögðu verður tekið á því.“