Breytingar á veiðigjaldafrumarpi

Árið 2012 var eitt það albesta í íslenskum sjávarútvegi fyrr …
Árið 2012 var eitt það albesta í íslenskum sjávarútvegi fyrr og síðar. mbl.is/Eggert

Atvinnuveganefnd afgreiddi í dag frumvarp til laga um breytingar á lögum um veiðigjöld. Er jafnvel búist við að frumvarpið verði lagt fyrir Alþingi í kvöld eða nótt og samþykkt fyrir þinglok. Breytingar voru gerðar á veiðigjaldinu í samræmi við nýjar tölur um verri afkomu sjávarútvegsfyrirtækja 2013.

Frumvarpið sjálft byggði á gögnum sem veiðigjaldanefnd hafði unnið í vetur um einstaka tegundir. Þær upplýsingar sem byggt var á voru frá árinu 2012, en á mánudaginn var komu fram nýjar tölur úr úttekt Hagfræðistofnunar Háskóla Íslands, á 5 fyrirtækjum í sjávarútvegi. Þær tölur benda til þess að milli áranna 2012-2013 hafi afkoman minnkað um 20-25%.

„Árið 2012 sem alltaf hefur verið miðað við í þessari veiðigjaldaálagningu er í raun albesta ár fyrr og síðar í íslenskum sjávarútvegi,“ segir Jón Gunnarsson þingmaður Sjálfstæðisflokks og formaður atvinnuveganefndar.

Samdrátturinn milli ára kemur bæði til vegna lægra verðs á mörkuðum og breytinga á gengi. „Á grundvelli þessa gerðum við breytingar á frumvarpinu, þar sem við lækkum þessa afkomustuðla, ekki eins mikið og afkomubreytingin segir til um, en sem nemur kannski rúmum milljarði,“ segir Jón.

Á móti kemur að nánari upplýsingar liggja nú fyrir um horfur í veiði, sem ekki voru ljósar þegar frumvarpið var samið. Jón segir að þegar allt kemur til alls standi breytingarnar í raun á jöfnu.

Áætlun um loðnuveiði hækkun úr 200.000 tonnum í 360.000 tonn, þorskur úr 20.000 í 30.000 tonn og makrílveiði sé áætluð um 6-7.000 tonnum meiri.

„Þetta gerir það að verkum að veiðigjöldin lækka í raun ekki heldur standa í sömu tölu. Síðan eru væntingar um jafnvel enn meiri veiði. Það lítur sæmilega út með loðnuna, þannig að það er möguleiki á að veiðigjöldin verði hærri en þetta ef bjartsýnustu spár ganga eftir,“ segir Jón.

Þingfundur stendur nú yfir og verður væntanlega fram á nótt, en um 50 mál eru á dagskrá og stefnt að því að þinglok verði ekki síðar en 17. maí. Aðspurður segist Jón allt eins eiga von á því að veiðigjaldafrumvarpið verði tekið fyrir í kvöld eða nótt.

„Þetta mun ekki hafa áhrif á samkomulag okkar um þinglok. Auðvitað eru skiptar skoðanir um þetta eins og gengur, en ég geri mér vonir um að þetta verði í góðu lagi.“

Sjá breytingartillögu á veiðigjaldafrumvarpi

Sjá nefndarálit um veiðigjaldafrumvarp

Jón Gunnarsson er formaður atvinnuveganefndar.
Jón Gunnarsson er formaður atvinnuveganefndar. mbl.is
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert