Hæstiréttur hefur staðfest úrskurð Héraðsdóms Reykjavíkur þar sem kröfum lögreglustjórans á höfuðborgarsvæðinu er hafnað, en hann fór fram á að fréttastjóri mbl.is upplýsti um heimildarmann í lekamálinu svokallaða. Héraðsdómur komst m.a. að því að efni minnisblaðs ráðuneytisins um málefni hælisleitanda, hafi átt erindi til almennings.
Í dómi Hæstaréttar kemur fram að frá meginreglunni um vernd heimildarmanna fjölmiðla verði aðeins vikið að í húfi séu mjög veigamiklir almannahagsmunir sem vega augljóslega þyngra en hagsmunir fjölmiðla af því að halda trúnaði við heimildarmenn sína. Málefni þeirra sem leitað hafi hælis hér á landi hafi verið mikið rædd á opinberum vettvangi og því eðlilegt að um þau sé fjallað á opinberum vettvangi. Verði að teknu tilliti til þess ekki talið að lögreglan hafi sýnt fram á að hagsmunir mbl.is af því að halda trúnað við höfund og heimildarmann fréttarinnar eigi að víkja fyrir þeim hagsmunum að fréttastjóranum skuli gert skylt að svara spurningum lögreglu í því skyni að upplýsa málið. Hér má lesa dóm Hæstaréttar í heild.
Lögreglustjórinn, sem rannsakar ætlað þagnarskyldubrot eins eða fleiri starfsmanna innanríkisráðuneytisins, krafðist þess að fréttastjórinn yrði boðaður í skýrslutöku til að upplýsa um það hver skrifaði fréttina „Margt er óljóst í máli hælisleitenda“, hvort mbl.is hafi haft óformlegt minnisblað innanríkisráðuneytisins um málið undir höndum og hvernig fréttavefurinn komst yfir minnisblaðið. Þetta er í annað sinn sem málið fer fyrir héraðsdóm og þaðan til Hæstaréttar.
Í síðari úrskurði héraðsdóms, sem féll 6. júní sl., kom fram, að einungis mikilsverðir hagsmunir er lúti að rannsókn alvarlegra sakamála geti vikið til hliðar heimildarvernd lögum samkvæmt. Í úrskurði héraðsdóms segir, að dómurinn fái ekki séð að fyrir hendi séu aðstæður í máli þessu sem dragi úr þýðingu þessarar verndar.
„Þó að mikilsverðir hagsmunir séu tengdir því að upplýsa það brot sem til rannsóknar er telur dómurinn varhugavert að álykta að þeir hagsmunir séu ríkari en þeir sem styðja að trúnaðurinn haldi. Þegar þessir andstæðu hagsmunir eru vegnir saman telur dómurinn því að sakargiftir í máli þessu séu ekki nógu alvarlegar til þess að varnaraðila verði gert að gefa upp heimildarmann mbl.is fyrir fréttaflutningi fjölmiðilsins 20. nóvember 2013. Sama á við spurningu sóknaraðila um það hver sé höfundur fréttarinnar „Margt óljóst í máli hælisleitanda“.“
Samkvæmt 1. mgr. 25. gr. laga nr. 38/2011 um fjölmiðla er starfsmönnum fjölmiðlaveitu sem hlotið hefur leyfi eða skráningu hjá fjölmiðlanefnd óheimilt að upplýsa hver sé heimildarmaður að grein, riti, frásögn, tilkynningu eða örðu efni, hvort sem það hafi birst eða ekki, hafi heimildarmaður eða höfundur óskað nafnleyndar. Starfsmönnum er jafnframt óheimilt að láta af hendi gögn sem hafa að geyma upplýsingar um heimildarmann eða höfund í slíkum tilvikum. Í 3. málsgrein sömu greinar kemur fram að þessari heimildarvernd verði einungis aflétt með samþykki viðkomandi heimildarmanns eða höfundar á grundvelli laga um meðferð sakamála.
Í dómi héraðsdóms segir að heimildarverndin byggi á því veigamikla hlutverki fjölmiðla að miðla upplýsingum sem erindi eiga til almennings. Sóknaraðili, lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu, reisir kröfu sína um að aflétta beri þessari heimildarvernd m.a. á því að upplýsingarnar, sem verið var að miðla í frétt mbl.is, hafi ekki átt erindi til almennings. Því sé varnaraðili, fréttastjóri mbl.is, ósammála.
Í niðurstöðu héraðsdóms segir að minnisblaðið sem um ræðir hafi verið tekið saman í tilefni af fyrirhuguðum mótmælum á meðferð stjórnvalda á hælisleitanda. Með því var athygli fjölmiðla og almennings vakin á máli hans, án þess að stjórnvöld hefðu frumkvæði að því. Í minnisblaðinu er farið yfir nokkur atriði sem fram komu í umsókn hans um hæli hér á landi. Fram kemur að í skjalinu er m.a. vikið að því, að í beiðni um frestun réttaráhrifa úrskurðar ráðuneytisins í máli hælisleitandans, hafi komið fram að hann væri nú í sambandi við nafngreinda íslenska stúlku, en áður hafi hann verið í sambandi við aðra konu sem hafi haft stöðu hælisleitanda hér á landi. Sú síðargreinda eigi von á barni og sé hælisleitandinn mögulega faðir þess. Þá kemur fram í minnisblaðinu að í beiðninni sé því haldið fram að hælisleitandinn hafi stöðu grunaðs manns í tveimur málum sem séu til rannsóknar hjá lögreglunni á Suðurnesjum. Í frétt mbl.is eru sömu efnisatriði rakin í meginatriðum.
Þá segir í niðurstöðu héraðsdóms: „Með því fékkst heildstæðari mynd af málinu sem þegar var til almennrar umfjöllunar, út frá sjónarhorni ráðuneytisins. Frá sjónarmiði fjölmiðils hlýtur afstaða ráðuneytisins til þeirra atriða sem voru tilefni mótmælanna að hafa þá þýðingu að það eigi erindi til almennings. Þó verður að draga í efna að hluti upplýsinganna sem fjallað var um í fréttinni hafi haft slíka þýðingu, einkum umfjöllun er tengist einkalífi hælisleitandans og þeirra kvenna sem þar koma við sögu. Þegar upplýsingarnar eru aftur á móti metnar heildstætt er það álit dómsins að þær hafi átt slíkt erindi við almenning að það dragi ekki úr þýðingu heimildarverndarinnar.“
Hæstiréttur tekur í niðurstöðu sinni ekki afstöðu til þess hvort réttlætanlegt hafi verið af hálfu mbl.is að birta þær persónuupplýsingar sem fram komu í hinu óformlega minnisblaði innanríkisráðuneytis. Hins vegar segir: „Málefni þeirra sem leitað hafa eftir hæli sem flóttamenn hér á landi hafa að vonum verið mikið rædd á opinberum vettvangi. Því er eðlilegt að um þau sé fjallað í fjölmiðlum og sú umfjöllun sé eftir atvikum byggð á frásögn manna sem ekki vilja láta nafns síns getið. Að teknu tilliti til þessa verður ekki talið að sóknaraðili hafi sýnt fram á að hagsmunir varnaraðila af því að halda trúnað við höfund og heimildarmann umræddrar fréttar eigi að víkja fyrir þeim hagsmunum að henni skuli gert að svara spurningum sóknaraðila í því skyni að upplýsa til fulls það mál sem til rannsóknar er.“
Samkvæmt því er það niðurstaða héraðsdóms að almennt verði að ganga út frá því að einungis mikilsverðir hagsmunir er lúta að rannsókn alvarlegra sakamáli geti vikið til hliðar heimildarverndinni. „Dómurinn fær ekki séð að fyrir hendi séu aðstæður í máli þessu sem dragi úr þýðingu þessarar verndar. Þó að mikilsverðir hagsmunir séu tengdir því að upplýsa það brot sem til rannsóknar er telur dómurinn varhugavert að álykta að þeir hagsmunir séu ríkari en þeir sem styðja að trúnaður haldi. Þegar þessir andstæðu hagsmunir eru vegnir saman telur dómurinn því að sakargiftir í máli þessu séu ekki nógu alvarlegar til þ ess að varnaraðila verði gert að gefa upp heimildarmann mbl.is.“
Lögreglustjórinn á höfuðborgarsvæðinu kærði úrskurð héraðsdóms til Hæstaréttar sem í dag staðfesti svo úrskurðinn.