Þórey leitar réttar síns

Þórey Vilhjálmsdóttir.
Þórey Vilhjálmsdóttir.

Þórey Vilhjálmsdóttir, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, hefur í samráði við lögmann sinn ákveðið að leita réttar síns gagnvart DV. Í morgun birti blaðið frétt þar sem því var haldið fram að Þórey hefði lekið trúnaðargögnum úr ráðuneytinu og til fjölmiðla.

„Í frétt í DV í morgun um rannsókn í tengslum við meintan leka trúnaðargagna úr innanríkisráðuneytinu vill undirrituð taka fram að í þeirri umfjöllun eru svo alvarleg ósannindi að ég hef nú í samráði við lögmann ákveðið að leita réttar míns gagnvart miðlinum,“ segir í yfirlýsingu frá Þóreyju. 

„Lýtur það að umræddri umfjöllun blaðsins, en einnig að öðrum og ótal ósönnum fréttum DV um þetta mál, þar sem blaðið hefur ítrekað kosið að fella dóma eða búa til atburðarrás sem eiga sér enga stoð í raunveruleikanum.  

Eins og ítrekað hefur komið fram mun ég ekki frekar en aðrir starfsmenn ráðuneytisins, tjá mig frekar um málið á meðan rannsókn þess stendur yfir.  Það er von mín að henni ljúki brátt svo umræðan geti farið að snúast um staðreyndir fremur en órökstuddar dylgjur.“

Uppfært kl. 13.37: Í fréttatilkynningu frá DV um málið, sem send var fjölmiðlum í kjölfar yfirlýsinga Þóreyja,r er hún beðin afsökunar á því að hafa verið tengd við „meint atferli Starfsmanns B“ í frétt blaðsins í dag af lekamálinu. „Mistökin eru á ábyrgð DV og koma til vegna rangra tenginga milli heimilda sem ritstjórn hafði aflað sér og á grundvelli þess að einungis er vísað til eins starfsmanns með réttarstöðu grunaðs manns í dómsskjölum,“ segir m.a. í tilkynningu DV. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert