„Ég minnist þess ekki að hafa heyrt frá þessum formanni SFR þegar störf stjórnenda voru flutt af sjúkrahúsinu í Stykkishólmi til Akraness eða þegar Rannsóknarnefnd sjóslysa var flutt frá Stykkishólmi til Reykjavíkur, sem var fullkomlega óskiljanleg aðgerð og fellur illa að þeirri hugmyndafræði að fjölga störfum opinberra aðila utan höfuðborgarinnar.“
Þetta segir Sturla Böðvarsson, bæjarstjóri Stykkishólms og fyrrverandi ráðherra og þingmaður Sjálfstæðisflokksins, á Facebook-síðu sinni í dag vegna áforma ríkisstjórnarinnar um að flytja höfuðstöðvar Fiskistofu frá Hafnarfirði til Akureyrar. Beinir hann þar spjótum sínum að Árna Stefáni Jónssyni, formanni SFR, sem gagnrýnt hefur áformin harðlega. Sturla segir Árna virðast vilja standa traustan vörð um störfin á höfuðborgarsvæðinu.
„Báðar þessar aðgerðir hafa verið mjög alvarlegar gagnvart starfsfólki og vinnumarkaði í Stykkishólmi, enda hefur íbúunum fækkað. Vonandi stendur ríkisstjórnin í lappirnar og stendur við þau loforð sem gefin hafa verið um að efla byggðirnar utan höfuðborgarsvæðisins, sem hefur hrifsað til sín nánast allan vöxt opinbera geirans,“ segir Sturla enn fremur.
Frétt mbl.is: „Ekki hægt að gera hvað sem er“
Frétt mbl.is: „Ég er alveg rasandi“
Frétt mbl.is: Segir aðferðafræðina kolranga
Frétt mbl.is: Flytja höfuðstöðvarnar til Akureyrar
Frétt mbl.is: Ákvörðun ráðherra áfall