Hanna Birna: Beitti ekki þrýstingi

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir mbl.is/Eggert

„Aðdróttanir DV eru þess eðlis að ég tel það farsælt að umboðsmaður Alþingis fari yfir málið og geri ég engar athugasemdir við spurningar hans,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra.

Tryggvi Gunn­ars­son, umboðsmaður Alþing­is, ritaði í dag Hönnu Birnu Kristjáns­dótt­ur bréf með ósk eft­ir til­tekn­um upp­lýs­ing­um um sam­skipti henn­ar við Stefán Ei­ríks­son, lög­reglu­stjóra á höfuðborg­ar­svæðinu, vegna lög­reglu­rann­sókn­ar sem embætti hans vann að og beind­ist að meðferð trúnaðar­upp­lýs­inga í inn­an­rík­is­ráðuneyt­inu. 

Hanna Birna segist hafa móttekið bréfið og muni svara spurningum umboðsmanns fyrir helgi.

Hún segist enga aðkomu hafa átt að ákvörðun lögreglustjóra um að skipta um starfsvettvang og hvorki beitt hann þrýstingi eða haft óeðlileg afskipti af einstökum málum sem eru eða hafa verið til meðferðar hjá lögreglu.

Í skriflegu svari segist hún ásamt öllum starfsmönnum ráðuneytisins hafa sýnt fullan samstarfsvilja við rannsókn málsins á öllum stigum enda hafi það verið rannsakað ítarlega. Þá segist hún ekki ætla að tjá sig frekar um málið fyrr en niðurstaða liggur fyrir.

DV fullyrti í gær að Stefán Ei­ríks­son hefði hætt störf­um sem lög­reglu­stjóri vegna af­skipta Hönnu Birnu af rann­sókn­inni á lek­an­um úr inn­an­rík­is­ráðuneyt­inu. Sjálf­ur hef­ur Stefán ekki viljað tjá sig um málið að öðru leyti en því að hann hafi ekki hætt vegna þrýst­ings, eins og hann sagði í sam­tali við mbl.is. Hann hef­ur hins­veg­ar ekki viljað segja af eða á um það hvort inn­an­rík­is­ráðherra hafi haft af­skipti af rann­sókn­inni.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert