Tryggvi Gunnarsson umboðsmaður Alþingis ritaði í dag Hönnu Birnu Kristjánsdóttur bréf með ósk eftir tilteknum upplýsingum um samskipti hennar við Stefán Eiríksson, lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu, vegna lögreglurannsóknar sem embætti hans vann að og beindist að meðferð trúnaðarupplýsinga í innanríkisráðuneytinu.
Þetta kemur fram á vefsíðu umboðsmanns Alþingis. Í bréfinu, sem þar er birt, segir að Tryggvi hafi í kjölfar umfjöllunar DV í gær rætt við bæði Stefán og Sigríði Friðjónsdóttur ríkissaksóknara. Í kjölfarið ákvað hann að óska eftir eftirfarandi upplýsingum frá Hönnu Birnu:
„Ég tek það fram að beiðni mín um þessar upplýsingar er sett fram til þess að ég geti tekið afstöðu til þess hvort ég tek mál þetta til formlegrar athugunar,“ segir Tryggvi í bréfinu og vísar í reglur og sjónarmið sem talin eru eiga við um samskipti ráðherra, sem fer með yfirstjórn lögreglu, við stjórnendur lögregluembætta og með tilliti til sjálfstæðis þeirra embætta og ákæruvalds við rannsókn sakamála.
„Það á sérstaklega við þegar umrædd rannsókn tengist málefnum ráðuneytis viðkomandi ráðherra,“ segir í bréfinu. Þess er óskað að innanríkisráðherra svari fyrirspurninni eigi síðar en 15. ágúst.
DV fullyrti í gær að Stefán Eiríksson hætti störfum sem lögreglustjóri vegna afskipta Hönnu Birnu af rannsókninni á lekanum úr innanríkisráðuneytinu. Sjálfur hefur Stefán ekki viljað tjá sig um málið að öðru leyti en því að hann hætti ekki vegna þrýstings, eins og hann sagði í samtali við mbl.is. Hann hefur hinsvegar ekki viljað segja af eða á um það hvort innanríkisráðherra hafi haft afskipti af rannsókninni.
mbl.is náði ekki tali af Hönnu Birnu í gær vegna málsins.