Viðar Guðjónsson
Stefán Eiríksson, lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, gerir engar athugasemdir við það sem fram kemur í bréfi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra til Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis.
Hann bætir því þó við að hann hafi komið gagnrýni og athugasemdum ráðherra á framfæri við ríkissaksóknara, sem fer með rannsókn á trúnaðarleka úr Innanríkisráðuneytinu.
Í bréfi Hönnu Birnu til umboðsmanns Alþingis kemur fram að engin óeðlileg afskipti hafi verið af rannsókn á trúnaðarleka úr Innanríkisráðuneytinu. Stefán gerir ekki athugasemdir við þann málflutning sem fram kemur í bréfinu.
„Ég get staðfest það sem þarna kemur fram. Svo get ég bætt því við að ég kom athugasemdum og gagnrýni á framfæri frá ráðherra við ríkissaksóknara sem fer með stjórn þessarar rannsóknar. Ég get hins vegar ekki tjáð mig nánar um það enda varðar það rannsókn málsins," segir Stefán.
Fram kom í bréfi Hönnu að langur tími rannsóknar ríkissaksóknar sé bagalegur og takmarki t.a.m. möguleika hennar til þess að svara „ítrekuðum árásum“ sem hún telur sig hafa orðið fyrir á opinberum vettvangi.