„Hafði ekki áhrif á rannsóknina“

Hanna Birna hefur svarað spurningum Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis
Hanna Birna hefur svarað spurningum Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis

„Ég hef átt fjóra almenna fundi með lögreglustjóra á tímabilinu frá því framangreind rannsókn hófst í febrúar sl., en enginn þeirra var boðaður til að ræða rannsóknina sérstaklega,“ segir Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra í svari við bréfi umboðsmanns Alþingis í dag.

Tryggvi Gunn­ars­son umboðsmaður Alþing­is ritaði á miðvikudaginn Hönnu Birnu Kristjáns­dótt­ur bréf með ósk eft­ir til­tekn­um upp­lýs­ing­um um sam­skipti henn­ar við Stefán Ei­ríks­son, lög­reglu­stjóra á höfuðborg­ar­svæðinu, vegna lög­reglu­rann­sókn­ar sem embætti hans vann að og beind­ist að meðferð trúnaðar­upp­lýs­inga í inn­an­rík­is­ráðuneyt­inu.

Á oft óformleg samskipti við undirstofnanir

Hanna Birna segir ráðherra eðli málsins samkvæmt reglulega eiga samskipti við forstöðumenn undirstofnana ráðuneytisins, oft og tíðum á óformlegum nótum, og sé því eins farið með lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. „Ekki er haldin skrá yfir þau samskipti og því er mér ekki unnt að leggja fram gögn til að upplýsa um tilvik þeirra.“

Hún segist hafa ásamt öðrum starfsmönnum ráðuneytisins gert allt í sínu valdi til þess að greiða fyrir rannsókninni og aldrei gert neitt til að hamla framgangi hennar. „Er raunar augljóst að hagsmunir mínir og annarra starfsmanna í ráðuneytinu hafa lotið að því að rannsóknin hefði greiðan framgang og gæti lokið sem allra fyrst.“

Spurði hvenær rannsókn lyki

„Í þeim tilvikum sem rannsóknina hefur borið á góma í samskiptum mínum við lögreglustjórann hefur það snúið að þeirri viðleitni ráðuneytisins að greiða fyrir rannsókn málsins.“ Þau tilvik segir hún snúa að öryggi gagna sem lögreglan hafi fengið aðgang að innan ráðuneytisins og hvenær þess mætti vænta að rannsókn lyki.

Hún segir þann langa tíma sem rannsóknin hafi tekið verið bagalegan og takmarkað möguleika hennar til að svara ítrekuðum árásum á opinberum vettvangi þar sem ekki sé við hæfi að ráðherra lögreglumála tjái sig opinberlega um yfirstandandi rannsókn.

Innti eftir því hvort samskiptin væru óviðeigandi

Þá tekur hún fram að hún hafi í samtölum við lögreglustjóra innt hann eftir því hvort honum þætti með einhverjum hætti óviðeigandi eða óþægilegt að hún ræddi við hann um framangreind atriði eða hvort samtölin væru til þess fallin að hamla störfum hans. „Kom fram að hans hálfu að svo væri ekki enda var honum ljóst að öll viðleitni mín í málinu laut að því að greiða fyrir framgangi rannsóknarinnar.“

Að lokum segir hún að ljóst sé af framangreindu að hún hafi á engum tímapunkti reynt að hafa áhrif á rannsóknina eða þá aðila sem henni stjórna.

Krafin um svör í kjölfar umfjöllunar DV

Umboðsmaður krafði Hönnu Birnu um svör í kjölfar um­fjöll­un­ar DV þar sem fullyrt var að Stefán hætti störf­um sem lög­reglu­stjóri vegna af­skipta Hönnu Birnu af rann­sókn­inni á lek­an­um úr inn­an­rík­is­ráðuneyt­inu.

Sjálf­ur hef­ur Stefán ekki viljað tjá sig um málið að öðru leyti en því að hann hætti ekki vegna þrýst­ings, eins og hann sagði í sam­tali við mbl.is. Hann hef­ur hins­veg­ar ekki viljað segja af eða á um það hvort inn­an­rík­is­ráðherra hafi haft af­skipti af rann­sókn­inni.

Hér að neðan má sjá svar Hönnu Birnu í heild sinni.

Stefán Eiríksson
Stefán Eiríksson Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert