Valtýr segir Hönnu Birnu eiga að víkja

Valtýr Sigurðsson.
Valtýr Sigurðsson. mbl.is/Ómar

Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, hefði átt að víkja tímabundið á meðan lögregla rannsakar ráðuneyti hennar og nú eru síðustu forvöð til þess.

Þetta segir Valtýr Sigurðsson, fyrrverandi ríkissaksóknari, í samtali við RÚV.

Hanna Birna viðurkenndi í gær í svari við fyrirspurn Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, að hafa átt fjóra al­menna fundi með Stefáni Eiríkssyni, fráfarandi lög­reglu­stjóra frá því að rann­sókn á lekamálinu svokallaða hófst í fe­brú­ar sl. Engan þeirra segir hún þó hafa verið boðaðan til að ræða rann­sókn­ina sér­stak­lega.

Umboðsmaður ritaði Hönnu Birnu bréfið á miðviku­dag­inn þar sem hann óskaði eftir gögnum um samskipti hennar við Stefán vegna rannsóknarinnar.

Í samtali við RÚV segir Valtýr málið afar óheppilegt. „Í þessu máli sérstaklega þar sem ráðherra ákvað að víkja ekki sæti við rannsóknina, þá er það afar óheppilegt að ráðherra sé að hafa svona samband og ræða rannsókn þar sem rannsóknin í þessu tilviki beinist að ráðherranum og ráðuneytinu sjálfu,“ segir hann.

„Og að mínu mati er alveg nóg að rannsakandinn hafi það á tilfinningunni að það sé verið að horfa yfir öxlina á honum og stýra rannsókninni og gagnrýna seinagang. Hvað þýðir það? Þýðir það að það eigi ekki að rannsaka þetta nógu vel? Á bara að fella þetta niður? Hvað þýðir það?“

Valtýr segir að eðlilegt hefði verið fyrir Hönnu Birnu að víkja sæti tímabundið um leið og rannsókn lögreglu hófst á ráðuneyti hennar.

Í bréfinu gagnrýndi Hanna Birna jafnframt seinagang með rannsóknina sem hún segir hafa tak­markað mögu­leika sína til að svara ít­rekuðum árás­um á op­in­ber­um vett­vangi þar sem ekki væri við hæfi að ráðherra lög­reglu­mála tjái sig op­in­ber­lega um yf­ir­stand­andi rann­sókn.

Hanna Birna Kristjánsdóttir
Hanna Birna Kristjánsdóttir mbl.is/Ómar
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert