Segir vantraust á ráðuneytið pólitískt moldviðri

Hanna Birna Kristjánsdóttir - Ráðherra ber að eigin sögn að …
Hanna Birna Kristjánsdóttir - Ráðherra ber að eigin sögn að hafa í heiðri að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð. Allir starfsmenn ráðuneytisins hafi neitað því að leka upplýsingum um Tony Omos. Eggert Jóhannesson

„Það verður að vera skýlaus réttur almennings að kæra hið opinbera ef honum líður eins  og brotið hafi verið á sér. Ef við ætlum alltaf að láta það skapa pólitískt moldviðri, í hverslags réttarríki lifum við þá?“

Þetta sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra í útvarpsviðtali í þættinum Sprengisandi nú í morgun, en Helgi Hrafn Gunnarsson alþingismaður hafði áður komið fram í þættinum og sagt Alþingi eiga erfitt með að treysta innanríkisráðuneytinu vegna lekamálsins svokallaða.

Saklausir uns sekt er sönnuð

Hanna Birna ítrekar í viðtalinu að hún hafi ekkert brotið af sér í tengslum við málið. Hún segist ekki hafa nokkra hugmynd um hver lak upplýsingum um hælisleitandann Tony Omos til fjölmiðla á sínum tíma og spyr jafnframt hvaða hag hún ætti að hafa af slíku.

Þá segir hún alvanalegt að starfsmenn ráðuneytisins séu í samskiptum við fjölmiðla. „Ráðuneytið mitt hefur fimmtíu málaflokka undir. Rannsóknin tengist ekkert því. Hún tengist því hvort menn hafi sent frá sér minnisblað.“

Allir starfsmenn ráðuneytisins neita því að hafa lekið upplýsingunum. Þær hafi tengst samantekt sem var unnin úr gögnum af undirstofnunum ráðuneytisins. „Ég er dómsmálaráðherra sem ber að hafa í heiðri að allir séu saklausir uns sekt er sönnuð. Ég get ekki bara hent fólki út úr ráðuneytinu til að létta á mér pólitísku álagi.

Veit ekkert um manninn

Þegar minnisblað ratar í fjölmiðla er það eðlilega kært, að sögn Hönnu Birnu. „Rannsóknin hefur gengið út á að velta því fyrir sér hvernig þessi samantekt fór út úr ráðuneytinu, ef hún þá fór, vegna þess að samantektin sem við höfum séð í fjölmiðlum er ekki eins og okkar samantekt.“

„Ég hef enga aðkomu að svona málum. Þetta er samið af embættismönnum.“ Segist Hanna Birna ekki vita nokkurn skapaðan hlut um Tony Omos. „Hvaða hag ætti ég að hafa af þessu máli?“ Einstaklingsmál af þessu tagi rati aldrei á hennar borð.

Áttum okkur á því að þessi einstaklingur sem um ræðir, það var búið að dæma hann úr landinu í tvígang. Hann var eftirlýstur af lögreglu á þessum tímapunkti, það voru mótmæli fyrir utan ráðuneytið og menn hafa jafnvel gert því skóna að það hafi verið eitthvað mikið mál fyrir mig.“ Varla líði sú vika í ráðuneytinu sem hún taki ekki við mótmælaskjölum út af innflytjendum. 

Trúnaðarbrot ef gögnin komu frá ráðuneytinu

Hún segir að komi í ljós að starfsmaður í ráðuneyti hennar hafi sent gagnið frá sér, hafi sá hinn sami brotið trúnað gagnvart henni. „Vegna þess að ég er ekki upplýst um það. Ég get ekki sagt það sannara, ég er ekki upplýst um það.“

Blaðamaður mbl.is náði ekki tali af innanríkisráðherra að svo stöddu, en hún er nú farin í frí að sögn aðstoðarmanns ráðherra.

Hlusta má á fyrri hluta viðtalsins hér.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert