Vill skýrari svör frá ráðherrum

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra fengu …
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra og Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra fengu bæði bréf frá umboðsmanni Alþingis í dag.

Umboðsmaður Alþingis sendi í dag bréf til bæði Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra og Sigmundar Davíðs Gunnlaugssonar forsætisráðherra í tengslum við lekamálið og samskipti Hönnu Birnu við Stefán Eiríksson lögreglustjóra. Sigmundur Davíð er þar spurður um siðareglur ríkisstjórnarinnar.

Í bréfi Tryggva Gunnarssonar, umboðsmanns Alþingis, til Sigmundar Davíðs segir að tilefnið sé það hlutverk sem hann sem forsætisráðherra fari með í tengslum við siðareglur ráðherra. Árið 2011 samþykkti ríkisstjórn Jóhönnu Sigurðardóttur siðareglur ráðherra, með gildistíma út starfstíma þáverandi ríkisstjórnar.

Láti vita verði siðareglur samþykktar

Ekki verður séð að ríkisstjórn Sigmundar Davíðs hafi samþykkt nýjar siðareglur, að því er fram kemur í bréfi umboðsmanns, en hann óskar þess að fá upplýsingar um hvort núverandi ríkisstjórn hafi samþykkt siðareglur fyrir ráðherra og afriti af þeim, séu þær til.

Hafi ríkisstjórn yðar, hr. forsætisráðherra, ekki samþykkt siðareglur fyrir ráðherra er í öðru lagi óskað eftir afstöðu yðar til þess hvort siðareglur ráðherra nr. 360/2011 gildi um störf ráðherra í ríkisstjórn yðar,“ segir ennfremur í bréfinu til Sigmundar Davíðs. Umboðsmaður vekur þar athygli á því að á vefsíðu forsætisráðhuneytisins sé enn hlekkur í siðareglur ráðherra, sem vísar í reglurnar frá 2011.

„Komi til þess að ríkisstjórn yðar samþykki siðareglur ráðherra er þess óskað að umboðsmanni verði tilkynnt um það sérstaklega,“ segir í bréfi Tryggva og þess óskað að svar berist frá Sigmundi Davíð fyrir 15. ágúst.

Ítrekuð beiðni til Hönnu Birnu um gögn

Bréfið til Hönnu Birnu Kristjánsdóttur kemur í framhaldi af svari hennar við fyrra bréfi umboðsmanns, þar sem óskað var upplýsinga um samskipti hennar við Stefán Eiríksson. Innanríkisráðherra sagðist í svari til Tryggva ekki geta lagt fram gögn um samskipti hennar við forstöðumenn undirstofnana, því ekki væri haldin um þau nein skrá.

Tryggvi virðist ekki taka þetta fullgilt því hann ítrekar nú ósk um upplýsingar og gögn um fundi hennar með Stefáni Eiríkssyni. Vísar hann m.a. í reglur um skráningu formlegra samskipta í Stjórnarráði Íslands, sem settar voru í desember 2013.

Umboðsmaður biður innanríkisráðherra því um nánari svör við eftirfarandi atriðum, í 5 liðum:

1. Í svarinu kemur fram að ráðherra hafi átt fjóra fundi með lögreglustjóranum á höfuðborgarsvæðinu á tímabilinu frá því rannsókn sú sem vísað er til í bréfinu hófst í febrúar sl. Ítrekuð er ósk umboðsmanns að upplýst verði hvenær þessir fundir fóru fram.

2. Í svarbréfinu kemur fram að enginn þessara funda hafi verið boðaður til að ræða áðurnefnda rannsókn sérstaklega. Óskað er eftir upplýsingum um hvaða málefni/viðfangsefni voru til umfjöllunar á þessum fundum og hver boðaði lögreglustjóra til fundanna af hálfu ráðuneytisins/ráðherra. Ítrekuð er ósk um að umboðsmanni verði afhent þau gögn sem til eru um þessa fundi, gögn sem lögð voru fram eða stuðst við á þessum fundum, þ.m.t. um fundarefni, boðun þeirra og skráningu frá fundunum. Minnt skal á að samkvæmt 1. mgr. 7. gr. laga nr. 85/1997, um umboðsmann Alþingis, er stjórnvöldum skylt að afhenda umboðsmanni umbeðin gögn og um meðferð þeirra og þagnarskyldu fer eftir 8. gr. sömu laga.

3. Með tilliti til þess sem fram kemur í svarbréfinu er óskað eftir að umboðsmanni verði afhent afrit af þeim gagna- og rannsóknarbeiðnum lögreglu sem beint var til innanríkisráðuneytisins eftir að áðurnefnd rannsókn hófst í febrúar sl. Jafnframt er óskað eftir að upplýst verði hvenær einstökum beiðnum var svarað af hálfu ráðuneytisins og umbeðin gögn látin í té. Tekið er fram að ekki er óskað eftir afriti af þeim gögnum sem ráðuneytið kann að hafa afhent lögreglunni.

4. Reglur um skráningu formlegra samskipta í Stjórnarráði Íslands voru settar af forsætisráðherra hinn 20. desember 2013 á grundvelli 2. mgr. 11. gr. laga nr. 115/2011, um Stjórnarráð Íslands. Reglur þessar eru nr. 1200/2013 og voru birtar í B-deild Stjórnartíðinda sem kom út 30. desember 2013 og öðluðust þegar gildi. Í reglunum er kveðið á um að skrá skuli í málaskrá ráðuneytis formleg samskipti og formlega fundi milli ráðuneyta og við aðila utan stjórnarráðsins. Í 3. og 4. tölul. 1. gr. er fjallað um samtöl og fundi. Í ljósi þess sem fram kemur í svari yðar, fr. innanríkisráðherra, um það hvað hafi borið á góma í samskiptum yðar við lögreglustjórann og um upplýsingaöflun lögreglunnar frá ráðuneytinu óskar umboðsmaður eftir að hann verði upplýstur um hvað af þessum samskiptum, þ.e. fundir og símtöl, hafi verið skráð í samræmi við reglur nr. 1200/2013 og ef það var ekki gert hverjar hafi verið ástæður þess.

5. Til þess að glöggva sig almennt á framkvæmd reglna nr. 1200/2013 að því er varðar skráningu símtala og funda hjá ráðuneytinu óskar umboðsmaður eftir að fá afhent afrit af heildarskrá innanríkisráðuneytisins um þessi atriði á tímabilinu 1. janúar til 1. júlí 2014. Ef ráðuneytið telur það erfiðleikum bundið að afhenda afrit þessara gagna í ljósi þess að umfang þeirra er það verulegt eða það verði ekki gert innan þess tíma sem óskað er eftir svari við bréfi þessu er óskað eftir að það komi fram og umboðsmaður mun þá kynna sér umræddar skrár í ráðuneytinu.

Tryggvi óskar þess sömuleiðis að Hanna Birna svari eigi síðar en 15. ágúst. Sjá nánar á vef umboðsmanns Alþingis.

Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis
Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis mbl.is/Eggert Jóhannesson
Stefán Eiríksson - Tvær umsóknir frá Stefáni eru til skoðunar …
Stefán Eiríksson - Tvær umsóknir frá Stefáni eru til skoðunar hjá borginni. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka