Fara eftir siðareglum frá 2011

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Eggert

Ríkisstjórnin lítur svo á að siðareglur sem voru gefnar út í mars 2011 eigi við um störf ráðherra sem hafi fengið kynningu á þeim í upphafi starfstíma ríkisstjórnarinnar. Þetta kemur fram í svari forsætisráðherra til umboðsmanns Alþingis. Hann spyr hvort settar hafi verið siðareglur fyrir embætti umboðsmanns Alþingis og ef reglur hafi verið settar hvort mögulegt sé að fá aðgang að þeim.

Umboðsmaður Alþingis, Tryggvi Gunnarsson, sendi Sigmundi Davíð og Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra bréf 6. ágúst sl. þar sem segir að tilefni bréfaskriftanna sé það hlutverk sem forsætisráðherra fari með í tengslum við siðareglur ráðherra.

Fram kemur í svari Sigmundar Davíðs, að við heildarendurskoðun stjórnarráðslaganna þar sem siðareglukaflinn hafi verið  tekinn inn hafi orðalag þessa ákvæðis hins vegar breyst nokkuð.

„Hér hafa tvær meginbreytingar orðið - í fyrsta lagi er það nú ríkisstjórnin sem heild sem fer með ákvörðunarvald um efni siðareglna en ekki forsætisráðherra einn og í öðru lagi gera lögin ekki lengur þá kröfu að hver ríkisstjórn setji sér eða staðfesti siðareglur sérstaklega heldur hafi samþykktar og birtar siðareglur einfaldlega gildi þar til þeim er breytt,“ segir í svarinu.

Spyr hvort settar hafi verið siðareglur fyrir embætti umboðsmanns Alþingis

„Ríkisstjórnin hefur í samræmi við þetta litið svo á að siðareglur nr. 360/2011 eigi við um störf ráðherra og fengu þeir kynningu á reglunum í upphafi starfstíma ríkisstjórnarinnar. Þær eru líka hluti af handbók sem ráðherrar fengu afhenta þegar þeir tóku við embætti.

Siðareglur ráðherra og hugsanlegar breytingar á þeim hafa komið til umræðu í ríkisstjórn. Ekki er ólíklegt að ráðist verði í einhverjar breytingar á reglunum með það að markmiði að skýra þær og einfalda og liggur fyrir vinnuskjal í ráðuneytinu um það efni. Leitast verður við að undirbúa þær breytingar, ef af þeim verður, vandlega og leita fyrirmynda sem víðast. Í því sambandi leyfir undirritaður sér að spyrja hvort settar hafi verið siðareglur fyrir embætti umboðsmanns Alþingis og ef reglur hafi verið settar hvort mögulegt sé að fá aðgang að þeim,“ segir ennfremur.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert