„Ég tel að Hanna Birna komist í gegnum þetta mál. Það er mín spá,“ sagði Bjarni Benediktsson, fjármálaráðherra og formaður Sjálfstæðisflokksins, í útvarpsþættinum Sprengisandi á Bylgjunni í morgun spurður út í stöðuna varaðandi leka á persónuupplýsingum um hælisleitanda úr innanríkisráðuneytinu.
Bjarni sagði augljóst að upp væri komin mjög óþægileg staða fyrir Hönnu Birnu eftir að Gísli Freyr Valdórsson annar aðstoðarmaður hennar var ákærður fyrir að hafa lekið umræddum upplýsingum til fjölmiðla. Hann teldi hins vegar að hún hefði brugðist rétt og hratt við þegar í ljós kom að aðstoðarmaðurinn hefði verið ákærður. Viðbrögð Hönnu Birnu hefðu verið rétt. Þá hefði ekkert komið fram sem sýndi fram aðkomu hennar að málinu.
Spurður hvort hann hefði áhuga á því að taka að sér dómsmálahluta innanríkisráðuneytisins eftir að Hanna Birna óskaði eftir því að þau mál væru færð til annars ráðherra á meðan á dómsmáli gegn Gísla Frey stendur yfir sagðist hann í sjálfu sér hafa nóg á sinni könnu. Hvernig sem það mál yrði leyst ætti einfaldlega eftir að ræða.
Bjarni sagðist aðspurður ekki vera í vafa um að Hanna Birna með hennar eiginleika ætti eftir að endurheimta það traust sem hún kynni að hafa misst vegna málsins. Hann ítrekaði að ekkert hefði komið fram sem sýndi fram á aðkomu hennar að málinu. Fyrir vikið væri engin ástæða fyrir hana að segja af sér embætti innanríkisráðherra.