Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra hefur fallist á beiðni Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra um að málefni dóms- og lögreglumála verði færð úr hennar höndum. Sigmundur og Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra funduðu um helgina vegna málsins og munu hittast aftur síðar í vikunni.
Sigmundur segir þá Bjarna meðal annars hafa rætt um hvaða ráðherra taki við umræddum málaflokkum. „Það er verið að skoða hvernig er best að standa að þessu stjórnsýslulega séð. Það eru nokkur álitaefni sem við eigum eftir að fara yfir en það væri betra að klára þetta fyrr en síðar,“ segir Sigmundur.
Hann bætir við að þeir starfsmenn innanríkisráðuneytisins sem starfi við dóms- og lögreglumál muni sinna störfum sínum að óbreyttu.
Aðspurður um hvort að breytingarnar gefi tilefni til upptöku sérstaks dómsmálaráðuneytis líkt og Bjarni Benediktsson sagði í gær, svarar Sigmundur að það hafi ekki verið rætt sérstaklega í tengslum við þetta mál.
„Það hefur legið fyrir frá upphafi að líklega yrði fjölgað í ríkisstjórninni þegar það kæmi inn ráðherra frá Framsókn og ráðherrar yrðu þá tíu. Jafnframt hefur verið rætt um að það kynni að vera ástæða til þess að skipta upp einhverju af þessum stóru ráðuneytum. Þar með hafa menn talað um innanríkisráðuneytið.
Fjármálaráðherra hefur alveg frá því í stjórnarmyndunarviðræðunum verið þeirrar skoðunar að það kynni að vera æskilegt að koma aftur á fót dóms- og kirkjumálaráðuneyti. Velferðarráðuneytið er annað sem kemur vel til greina að skipta upp. Það hefur verið rætt óháð þessu og verður gert áfram,“ segir Sigmundur.
Hann segir óvíst að samhliða beiðni innanríkisráðherra verði lokið við breytingar á ráðuneytaskipan, en þær verði þó kláraðar í framhaldinu.
Samkvæmt tilkynningu frá Pírötum hyggst flokkurinn lýsa vantrausti á Hönnu Birnu vegna málsins. Tillagan verður lögð fyrir á haustþingi, en Píratar telja ráðherra vera vanhæfa og rúin trausti í samfélaginu. Þeir segja að ráðherra hyggist afgreiða lekamálið með hætti sem þingflokkur Pírata telji óásættanlegan með hliðsjón af því sem á undan er gengið.
Er nóg að innanríkisráðherra afgreiði málið með þessum hætti, í stað þess að stíga alfarið til hliðar? „Ég er þeirrar skoðunar að þetta séu eðlileg viðbrögð hjá Hönnu Birnu vegna þess að ráðherra er eftir því sem ég best veit ekki grunaður um neitt og jafnframt hljótum við að líta svo á að aðstoðarmaðurinn sé saklaus þangað til annað er sannað. Af því leiðir að mér finnst þetta vera nægjanlegt,“ svarar Sigmundur.
„Það er svosem ekki mikið um tillöguna að segja. Það er svolítið sérstakt að vantrauststillaga út af lekamáli skuli koma frá Pírötum. Ég hélt að þeir væru helstu stuðningsmenn leka, löglegs og ólöglegs,“ segir Sigmundur.