Gísli Freyr Valdórsson er ákærður fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi sínu sem aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra. Þetta kemur fram í ákæru ríkissaksóknara, sem Rúv birti í heilu lagi í kvöld. Brotið varðar allt að 3 árum.
Í ákærunni, sem birt var Gísla Frey á föstudaginn, segir að hann hafi látið óviðkomandi í té efni samantektar sem bar yfirskriftina „Minnisblað varðandi Tony Omos“. Samantektin hafi verið unnin af starfsmönnum innanríkisráðuneytisins 19. nóvember, til upplýsingar fyrir innanríkisráðherra í tilefni af boðuðum mótmælum við ráðuneytið 20. nóvember vegna brottvísunar hælisleitandans Tonys Omos.
„Í samantektinni var að finna viðkvæmar persónuupplýsingar og upplýsingar um einkamálefni þriggja einstaklinga sem leynt áttu að fara, en þar var því meðal annars lýst að Tony Omos hefði st0ðu grunaðs manns í tveimur umfangsmiklum sakamálum, að í hælismáli Evelyn Glody Joseph sem ætti von á barni, hugsanlega með Tony Omos, sé því borið við að hún sé mansalsfórnarlamb og að Tony Omos sé í sambandi við íslenska stúlku sem nafngreind var í minnisblaðinu,“ segir í ákærunni.
Þessar upplýsingar hafi verið til þess fallnar að hafa áhrif á umfjöllun um mál Tony Omos sem hælisleitanda, að mati ríkissaksóknara. Þær birtust í Fréttablaðinu og á visir.is og mbl.is að morgni 20. nóvember 2013.
Gísli Freyr telst þar með hafa brotið gegn 1. málsgrein 136. greinar hegningarlaga, en þar segir:
„Opinber starfsmaður, sem segir frá nokkru, er leynt á að fara og hann hefur fengið vitneskju um í starfi sínu eða varðar embætti hans eða sýslan, skal sæta 1) fangelsi allt að einu ári. Hafi hann gert það til þess að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings, eða noti hann slíka vitneskju í því skyni, má beita fangelsi allt að 3 árum.“