Ríkisstjórnin ákvað á fundi sínum í morgun að tillögu Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra að færa málefni dómstóla, lögreglu og ákæruvalds undan ábyrgðarsviði hennar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá forsætisráðuneytinu.
Sett verður á fót nýtt embætti dómsmálaráðherra í innanríkisráðuneytinu og mun forsætisráðherra gegna því embætti samhliða störfum sínum sem forsætisráðherra þar til annað verður ákveðið. Meðal þeirra málaflokka sem heyra munu undir hið nýja ráðuneyti eru lögreglustjóraembættin og saksóknarar auk almannavarna.
„Þannig gerir tillagan ráð fyrir að auk ríkissaksóknara og sérstaks saksóknara muni lögreglustjóraembættin og ríkislögreglustjóri heyra undir hið nýja ráðherraembætti. Það leiðir jafnframt af framangreindum breytingum, sbr. lykilhlutverk embættis ríkislögreglustjóra á því sviði, að stjórnarmálefnið almannavarnir, sbr. lög um almannavarnir, mun heyra undir hið nýja embætti.“