Ráðuneytið fái svigrúm til að svara

Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra.
Bjarni Benediktsson fjármálaráðherra. mbl.is/Ómar Óskarsson

„Mér finnst eðlilegt að ráðuneytið fái tíma til þess að svara. Maður spyr sig að því hvaða tilefni er fyrir umboðsmann að birta mál sem er enn í vinnslu í fjölmiðlum og gefa mönnum ekki tækifæri til þess að koma sjónarmiðum á framfæri áður en málið er tekið til opinberrar umræðu.“

Þetta sagði Bjarni Bendiktsson fjármálaráðherra við fjölmiðla í morgun að loknum ríkisstjórnarfundi í Stjórnarráðinu spurður um ákvörðun umboðsmanns að hefja sjálfstæða athugun á samskiptum Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra við Stefán Eiríksson þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins vegna lekamálsins svokallaðs. Hann sagðist að öðru leyrti ekki vilja tjá sig um bréf umboðsmanns þar sem hann hefði ekki lesið það. Þá væri ráðherrann fullfær um að svara fyrir athugasemdir hans.

„Ráðherrann hefur fullt traust til þess að svara fyrir þessar ásakanir, hún hefur traust til þess að gegna sínu embætti. Það hefur ekkert breyst hvað það snertir,“ sagði Bjarni og bætti við að Hanna Birna hlyti að eiga rétt á því að fá tíma til þess að svara athugasemdum umboðsmanns og hann vissi að hún ætlaði að gera það. Spurður hvort Bjarni tæki undir gagnrýni innanríkisráðherra á umboðsmnann Alþingis sagði hann:

„Það sem mér finnst einkum athugavert við framganginn þessa dagana og það sem er að gerast í dag er að hér eru sett fram sjónarmið í málinu og send fjölmiðlum þegar fyrir liggur að ráðuneytið á eftir að bregðast við. Og ég sé ekki alveg tilganginn með því að efna til umræðunnar áður en svörin eru komin fram. Mér finnst það mjög á skjön við annað verklag hjá umboðsmanni Alþingis sem er jú einkum að fylgjast með því að alls staðar í stjórnsýslunni sé andmælaréttur virtur og meðalhófs gætt til þess að mál fái málefnalega umfjöllun.“

Spurður um framtíð Hönnu Birnu í ríkisstjórninni sagðist Bjarni vonast til að krafta hennar nyti áfram við í ríkisstjórninni, en hún sagði í yfirlýsingu í morgun að hún ætlaði að íhuga stöðu sína í stjórnmálum. 

Frétt mbl.is: Sigmundur fer með dómsmál

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert