„Svo kom gusa af gagnrýni“

Stefán Eiríksson
Stefán Eiríksson Ómar Óskarsson

Stefán Eiríksson, fráfarandi lögreglustjóri á höfuðborgarsvæðinu, tók skýrt fram við umboðsmann Alþingis að hann hefði ekki látið af störfum vegna samskipta við Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, eða þrýstings af hennar hálfu. Hann hefði áður lýst yfir vilja sínum til að skipta um starfsvettvang.

Þetta kemur fram í bréfi umboðsmanns þar sem rakin er nokkurs konar yfirheyrsla yfir Stefáni. Í yfirheyrslunni segir að það hefði ítrekað komið fram í samtölum Stefáns og Hönnu Birnu að allt sem hún segi við hann væri í fyllsta trúnaði og að hann héldi þann trúnað. Aftur á móti liti hann svo á að með hliðsjón af lögum um umboðsmann Alþingis gæti hann ekki annað en svarað öllum spurningum umboðsmanns um málið.

Meðal þess sem kom fram í yfirheyrslunni yfir Stefáni er að lögregla boðaði á fimmtudegi annan aðstoðarmann Hönnu Birnu til skýrslutöku á mánudeginum eftir þar sem taka þurfti viðbótarskýrslu af honum. Um það sagði Stefán: „Þá fljótlega fæ ég símtöl og athugasemdir frá ráðherra við það að þetta sé algjörlega ómögulegt, hann eigi ekki að þurfa að sæta því að sitja undir því heila helgi að vera boðaður til yfirheyrslu þannig að við reyndum að flýta þessu eins og hægt var og boðuðum hann til skýrslutöku á laugardegi.“

Sagðist ætla að láta rannsaka rannsóknina

Þá sagði Stefán að eftir að dagblaðið DV greindi frá því að Stefán hafi hætt vegna þrýstings frá Hönnu Birnu hafi aðstoðarmenn hennar báðir haft samband við hann. „Það voru nú aðallega aðstoðarmennirnir hennar sem settu fram óskir um að ég myndi þarna á þriðjudeginum þegar þetta birtist senda frá mér einhverjar yfirlýsingar. [...] ég setti síðan inn á Twitter-síðu sem ég er með stutt innlegg um það að ég hefði ekki hætt út af ráðherranum heldur af öðrum ástæðum.“

Ennfremur sagði Stefán að Hanna Birna hefði tekið það ítrekað fram að hún væri ekki að skipta sér af rannsókninni og væri „ekki að reyna hafa áhrif á rannsóknina og annað í þeim dúr en svo kom dágóð gusa af gagnrýni.“

Stefán sagðist þá hafa komið því á framfæri við ríkissaksóknara að Hanna Birna hefði sagt í samtali við sig að þegar lekamálinu lyki „þá væri það alveg ljóst í hennar huga að það þyrfti að rannsaka rannsókn lögreglu og ríkissaksóknara.“

Frétt mbl.is: „Eruð þið ekki að ganga of langt“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert