Björg Thorarensen, prófessor við lagadeild Háskóla Íslands, segir að „innanríkisráðherra og lögreglustjóri eigi aldrei að ræðast við meðan embættisfærslur á skrifstofu ráðherra séu til rannsóknar. Slík samskipti séu óvenjuleg og án fordæma.“ Þetta kom fram í kvöldfréttum RÚV.
Hanna Birna sagði í Kastljósi í gær að ekkert hafi verið óeðlilegt í samskiptum þeirra Stefáns Eiríkssonar. Hún sagðist óska þess að til hefðu verið verklagsreglur um hvernig ætti að bregðast við innan ráðuneytisins í slíkri aðstöðu. Björg sagði í kvöldfréttum RÚV að ráðherra og lögreglustjóri eigi engin samskipti að hafa þegar þannig stendur á.
„Það er náttúrulega svo óvenjuleg aðstaða og fordæmalaus,“ sagði Björg í samtali við RÚV í kvöld. „Það er aðstaða sem ætti raunverulega ekki að skapast og maður ætti ekki að gera ráð fyrir. Ég held að það sé réttast, bæði frá lagalegu og siðferðislegu sjónarhorni, að það séu enginn samskipti æðsta yfirmanns dómsstóla og lögreglustjóra þegar verið er að rannsaka embættisfærslur á skrifstofu ráðherra.“