Tryggvi Gunnarsson, umboðsmaður Alþingis, mun taka afstöðu til þeirra svara sem fram koma í bréfi Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra, sem barst embættinu í gær vegna lekamálsins svokallaða, og ákveða í kjölfar þess framhald málsins.
Óljóst er hvenær svara er að vænta frá umboðsmanni en aðspurður sagði hann fjölmörg mál bíða afgreiðslu embættisins en reynt yrði að bregðast við bréfi innanríkisráðherra sem allra fyrst.
Í svari sínu, gerði Hanna Birna m.a. alvarlegar athugasemdir við að umboðsmaður Alþingis hefði neitað henni um frest til að svara bréfi hans frá 25. ágúst sl. áður en það var birt almenningi. Hún sagði hann hafa farið á svig við reglur stjórnsýsluréttar um meðalhóf og andmælarétt.
Í svari Hönnu Birnu við bréfinu segir að hún sjái ekki hvaða tilgangi það þjóni að taka upp athugun á starfsháttum hennar og fjalla um hana fyrir opnum tjöldum án þess að um leið sé gerð grein fyrir þeim sjónarmiðum sem hún hafi fram að færa.
Hanna Birna sagði ennfremur í bréfinu, að skoða yrði samskipti hennar við Stefán Eiríksson, þáverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, út frá þeirri staðreynd að hann stýrði ekki rannsókn lekamálsins heldur hafi það verið ríksisaksóknari.
Svar ráðherra á vef innanríkisráðuneytisins.