Gísli Freyr neitar sök

Þingfesting í máli Gísla Freys fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur.
Þingfesting í máli Gísla Freys fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur. mbl.is/Golli

Gísli Freyr Valdórsson, aðstoðarmaður Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, innanríkisráðherra, lýsti sig saklausan af ákæru í lekamálinu þegar málið var þingfest morgun. Gísli Freyr er ákærður fyrir brot í starfi sínu gegn þagnarskyldu sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra.

Gísli Freyr lagði fram kröfu um frávísun í málinu, og óskaði eftir að hún yrði tekin fyrir sem fyrst. Ákveðið var að taka hana fyrir þriðjudaginn 30. september.

Helgi Magnús Gunnarsson, vararíkissaksóknari, lagði fram bótakröfu í málinu, sem Gísli Freyr hafnaði.

Í greinargerð Gísla Freys er ekki tekin afstaða gegn framhaldsákæru ákæruvaldsins, þar sem Gísli Freyr og verjandi hans vissu ekki af tilvist hennar fyrr en í gær.

Hefur ekki átt samskipti við Hönnu Birnu

Gísli Freyr sagðist vonast eftir að frávísunarkrafan yrði tekin til greina.  „Við skiluðum greinargerð í dag og ætlum að leyfa henni að tala sínu máli“ segir Gísli Freyr eftir að þinghaldinu lauk, en hann var spurður um á hvaða grundvelli hann krefðist frávísunar. „Við munum gera grein fyrir henni á næstu dögum,“ segir Gísli.

„Það er margt sem mann langar til að segja en ég held ég segi sem minnst núna,“ segir Gísli Freyr þegar hann var spurður frekar út í ákæruna. Hann segist jafnframt ekki hafa verið í samskiptum við innanríkisráðherra síðustu daga.

Í framhaldsákærunni, sem lögð var fyrir dóminn í morgun, er Gísli Freyr krafinn um miskabætur, samtals um 7 milljónir króna, vegna meintra brota.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert