Skjalið opnað undir morgun

Gísli Freyr.
Gísli Freyr. mbl.is/Golli

Óformlega minnisblaðið um hælisleitandann Tony Omos var vistað á opnu drifi innanríkisráðuneytisins þannig að allir starfsmenn þess gátu nálgast skjalið. í rannsóknargögnum lögreglu kemur fram að það hafi síðast verið skoðað klukkan 5.39 aðfaranótt 20. nóvember 2013.

Í greinargerð verjanda Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns innanríkisráðherra, sem ákærður er fyrir að hafa lekið skjalinu í fjölmiðla segir: „Í þeim gögnum [rannsóknargögnum lögreglu] var að finna veigamiklar upplýsingar sem leiða í ljós eða benda a.m.k. mjög eindregið til íhlutunar annarra en þeirra sem samantektin var ætluð [...]. Þannig kemur fram að samantektin hafi síðast verið skoðuð inni á opnu drifi í tölvukerfi IRR kl. 05.39 aðfaranótt 20. nóvember [2013], eins og áður segir. Staðfestir þetta að samantektin var augljóslega á vitorði fleiri en þeirra sem að henni unnu eða fengu hana senda. Enda fullkomlega órökrétt fyrir hlutaðeigendur að skoða skjalið inni á opnu drifi, hvað þá í skjóli nætur.“

Þá segir að Gísli Freyr hafi ekki fjartengibúnað í tölvu sinni og hafði því ekki tök á því að skoða skjalið á opna drifinu utan ráðuneytisins, auk þess sem það hafi verið ástæðulaust þar sem hann fékk það sent. „Ákærði telur að ofangreint hefði þarfnast ítarlegri rannsóknar af hálfu rannsakenda og hefði verjandi ákærða svo sannarlega gert slíka kröfu. Áhersla ákæruvaldsins á að ná sakfellingu yfir ákærða var hins vegar slík að ákærða var ekki einu sinni gert viðvart um þessar nýju upplýsingar og tilhæfulaus ákæra gefin út.“

Vísar verjandinn til þess að þessar upplýsingar hafi fyrst komið fram eftir að ákæran var gefin út.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert