Undirbúningur er langt kominn að nýju glæsihóteli á Hnappavöllum, á milli Jökulsárlóns og Skaftafells, sem verður hluti af Fosshótelkeðjunni. Framkvæmdir hefjast fyrir áramót og hljóðar kostnaðaráætlun upp á 1,3-1,4 milljarða. Hótelið verður með 116 herbergjum.
Þá er unnið að hönnun 91 herbergis Fosshótels við Mývatn sem áætlað er að kosti 800-1.000 milljónir.
Til viðbótar við nýju hótelin tvö er unnið að stækkun Fosshótels Húsavíkur sem verður opnað fullbúið sumarið 2016. Kostnaður við breytingarnar er 1,2 milljarðar.
Í umfjöllun um áform þessi í Morgunblaðinu í dag segir Davíð Torfi Ólafsson, framkvæmdastjóri Íslandshótela, sem eiga og reka Fosshótelin, fyrirtækið hafa þá stefnu að fjölga hágæðahótelum úti á landi. Það sé enda skortur á slíkri gistingu.