Eiginmaðurinn grunaður um morð

Ljósmynd/Kristinn Freyr Jörundsson

Eiginmaður konunnar sem fannst látin í Stelkshólum er grunaður um að hafa orðið henni að bana. Talið er að hann hafi þrengt að öndunarvegi konunnar. Þetta kemur fram í fréttatilkynningu frá lögreglunni á höfuðborgarsvæðinu.

Maðurinn sem er í vörslu lögreglunnar er 28 ára gamall, en konan sem lést var 26 ára gömul.

Lögreglu barst tilkynning skömmu eftir miðnætti um að kona væri látin á heimili sínu í Breiðholti. Tilkynningin barst frá aðila sem hinn handtekni hafði látið vita af andlátinu. Við komu á vettvang vaknaði grunur um að andlát konunnar hefði borið að með saknæmum hætti. Eiginmaður konunnar, sem ekki hefur komið við sögu lögreglu áður vegna sakamála, var handtekinn í íbúðinni og færður í fangageymslu lögreglu. Hann er grunaður um að hafa þrengt að öndunarvegi konunnar þannig að hún hlaut bana af.

Yfirheyrslur yfir hinum grunaða standa nú yfir og lögð verður fram krafa um gæsluvarðhald vegna rannsóknarhagsmuna síðar í dag. Börn hjónanna, tveggja og fimm ára voru á heimilinu, en þeim hefur verið komið í viðeigandi umönnun hjá barnaverndaryfirvöldum.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert