Sigurður Ingi Jóhannsson, sjávarútvegs- og landbúnaðarráðherra, telur að einboðið að efnahagsnefnd Alþingis fjalli um fréttir um neysluviðmið og taki það til ítarlegrar skoðunar. „Komi í ljós að miðað sé við röng eða að einhverju leyti ekki fullnægjandi viðmið býst ég við að menn taki það til gagngerrar endurskoðunar.“
Þetta sagði Sigurður Ingi í óundirbúnum fyrirspurnartíma á Alþingi í dag.
Árni Páll Árnason, þingmaður Samfylkingarinnar, spurði Sigurð Inga hvort ekki ætti að endurskoða frá grunni áform um hækkun á virðisaukaskatti á mat, í ljósi þess að fjármálaráðuneytið hefði lagt til grundvallar við útreikning sinn á afleiðingum hækkunarinnar að matarkostnaður á hvern einstakling væri 248 kr.
Árni Páll sagði að annaðhvort hefði ráðuneytið gert mistök eða ríkisstjórnin hefði náð slíkum árangri í sparinnkaupum að „þeir skuldi okkur öllum hinum námskeið í því hvernig eigi að láta enda ná saman með matarkostnað upp á 248 kr. fyrir einstakling á hverja máltíð,“ sagði hann og bætti við að það væri augljóst að forsendurnar fyrir hækkuninni stæðust ekki.
Sigurður Ingi sagði augljóst að þingið væri einmitt í þeirri stöðu að fara yfir þær forsendur sem hefðu verið fyrir þessum breytingum.
„Ég ítreka að breytingarnar í heild sinni áttu að skila almenningi í landinu umtalsverðum ávinningi og jafnframt lækkun á vísitölu í landinu, sem er auðvitað grundvallarbreyting frá þeim áformum sem voru hér fyrir nokkrum árum þegar eingöngu var talað um hækkun á virðisaukaskatti með tilheyrandi hækkun á vísitölu,“ sagði Sigurður Ingi.