„Það er þeirra mál að nálgast þetta með þessum hætti. Mér finnst þetta auðvitað bæði ótrúlega ómaklegt, fyrir utan að það sem í henni kemur fram er ekki einu sinni satt,“ sagði Hanna Birna Kristjánsdóttir innanríkisráðherra um ályktun flokksráðsfundar VG frá í gær um að hún eigi að segja af sér vegna lekamálsins. Hanna Birna ræddi málið á Sprengisandi á Bylgjunni í morgun.
„En ég ætla ekki að hafa á því skoðun. Ef þetta er það sem þau telja að brenni helst á íslenskum almenningi og sé mikilvægast að fjalla um á þeirra flokksráðsfundi, þá gera þau það.“
Hanna Birna sagðist vera mjög hugsi yfir mörgu í stjórnmálunum. „Afar hugsi. Og það er eitthvað sem maður fer yfir þegar rykið sest í þessu máli. Ég hef verið þeirrar skoðunar að í grunninn sé þetta mjög ljótur pólitískur leikur og sú skoðun mín hefur ekkert breyst.“
Hanna Birna sagði að ef menn vildu „vinda þessa tusku eins og mögulegt er“ þá gerðu menn það. „Það er kannski bara ósköp hefðbundin og viðbúin pólitík.“
Hanna Birna minnti á að hún væri ekki lengur dómsmálaráðherra. „Það er eins og það hafi farið framhjá þeim sem vilja láta það fara framhjá sér.“
Ályktun flokksráðsfundar VG er þessi:
Flokksráðsfundur Vinstrihreyfingarinnar græns framboðs, haldinn í Hafnarfirði 17.-18. október 2014, telur ljóst að innanríkisráðherra sé ekki sætt í embætti. Fundurinn telur með öllu óviðunandi að viðkvæmum persónuupplýsingum um hælisleitanda hafi verið lekið frá skrifstofu innanríkisráðherra í fjölmiðla.
Fundurinn gagnrýnir einnig harðlega að ráðherra hafi ekki farið rétt með gagnvart þinginu í málinu og að ráðherra hafi haft bein afskipti af rannsókninni í samskiptum sínum við lögreglustjórann á höfuðborgarsvæðinu. Þannig eru í raun fleiri en eitt sjálfstætt tilefni fyrir ráðherra til að segja af sér embætti. Loks átelur fundurinn þær kauðalegu tilfæringar ríkisstjórnarinnar að flytja dómsmálin til annars ráðherra án þess að fagleg eða efnisleg rök liggi til grundvallar.