Fékk 39 milljónir fyrir sparisjóðaskýrslu

Rannsóknarnefnd sparisjóðanna. Nefndarmennirnir Bjarni Frímann Karlsson, Tinna Finnbogadóttir og Hrannar …
Rannsóknarnefnd sparisjóðanna. Nefndarmennirnir Bjarni Frímann Karlsson, Tinna Finnbogadóttir og Hrannar Hafberg, formaður nefndarinnar. Rannsóknarnefnd sparisjóðanna. mbl.is/Árni Sæberg

Bjarni Frímann Karlsson var í fullu starfi við gerð rannsóknarskýrslu um sparisjóðina í 32 mánuði og fékk fyrir það greitt 39 milljónir króna. Þetta er meðal þess sem kemur fram í svari forseta Alþingis við spurningu frá Karli Garðarssyni þingmanni Framsóknarflokksins.

Auk Bjarna Frímanns var Tinna Finnbogadóttir í fullu starfi fyrir nefndina. Hún fékk greiddar rúmar 38 milljónir króna fyrir vinnu sína en hún tók launalaust leyfi um tíma og það skýrir hvers vegna hún fékk lægri laun en Bjarni Frímann.

Karl Garðarsson spurði:  Hvaða greiðslur fengu nefndarmenn í rannsóknarnefnd um aðdraganda og orsakir erfiðleika og falls sparisjóðanna fyrir störf sín við skýrslugerðina, sundurliðað eftir einstaklingum? Hvaða tímafjöldi lá að baki greiðslum til hvers og eins og hvert var tímakaupið?
 

Svar forseta Alþingis:

Laun nefndarmanna tóku mið af launum héraðsdómara eins og þau voru ákveðin af kjararáði. Laun héraðsdómara samanstanda af mánaðarlaunum auk eininga. Sú viðmiðun þótti eiga við þar sem í starfi rannsóknarnefndarmanna reynir m.a. á úrlausn lögfræðilegra viðfangsefna auk þess sem rannsóknarnefnd getur verið falið að meta lögfræðileg atriði til að varpa ljósi á það hvort grundvöllur sé fyrir því að einstaklingar eða lögaðilar skuli sæta ábyrgð. Þá er rannsóknarnefnd enn fremur ætlað að tilkynna ríkissaksóknara og þar til bærum aðilum vakni grunur um refsiverða háttsemi eða hvort opinber starfsmaður hafi gerst brotlegur við starfsskyldur sínar.

Fengu 1,1 milljón í laun á mánuði

Til viðbótar var nefndarmönnum ákveðið álag sem hlutfall af launum héraðsdómara til þess að mæta álagi og yfirvinnu, enda viðbúið að vinna rannsóknarnefndarmanna yrði mun umfangsmeiri en störf héraðsdómara. Hjá formanni var álag ákveðið 25% og hjá nefndarmönnum 12,5%. Laun nefndarmanna voru því föst fjárhæð á mánuði. Mánaðarlaun nefndarmanna með álagi, miðað við 1. febrúar 2013, voru hjá formanni 1.224.529 kr. og hjá öðrum nefndarmönnum 1.114.529 kr.
   

Rannsóknarnefndarmenn hófu störf 1. september 2011 og þeim lauk þegar nefndin skilaði skýrslu sinni 10. apríl 2014.

Sigríður Ingvarsdóttir starfaði sem formaður nefndarinnar til 20. september 2012 en Hrannar Már S. Hafberg tók við formennsku í nefndinni 1. október 2012 og gegndi henni þar til störfum nefndarinnar lauk. Þau Sigríður, Hrannar, Tinna Finnbogadóttir og Bjarni Frímann Karlsson voru í fullu starfi fyrir nefndina.

Greiðslur til nefndarmanna á starfstíma þeirra voru annars vegar 16.151.220 kr. til Sigríðar Ingvarsdóttur í 13 mánuði til 20. september 2012 og 24.151.674 kr. til Hrannars í 19 mánuði frá 1. október 2012 og hins vegar 38.213.791 kr. til Tinnu í 32 mánuði, og 39.134.660 kr. til Bjarna Frímanns í 32 mánuði.

Inni í þessum tölum er uppgjör á orlofi til nefndarmanna og fæðispeningar sem nefndarmenn áttu kost á frá 1. maí 2012. Mismunur á launum Tinnu og Bjarna Frímanns skýrist af launalausu orlofi Tinnu í október 2011 og mismunandi greiðslum vegna fæðispeninga.

„Í fyrirspurninni er spurt hvaða tímafjöldi hafi legið að baki greiðslum til hvers og eins og hvert hafi verið tímakaupið. Greiðslur til nefndarmanna voru ákveðnar sem föst fjárhæð á mánuði sem samanstóð af mánaðarlaunum, tilteknum fjölda eininga og álagi. Með þessu var greitt fyrir alla vinnu nefndarmanna en ljóst er að stærstan hluta starfstíma þeirra hjá nefndinni var vinnutíminn verulega umfram hefðbundna vinnuviku, bæði virka daga og um helgar. Ekki var um það að ræða að miðað væri við tímafjölda sem í raun lá að baki greiðslum til hvers og eins eða að gerðir væru sérstakir útreikningar á tímakaupi,“ segir í svarinu sem hægt er að lesa í heild hér

Hér er hægt að lesa um laun við gerð rannsóknarskýrslu Alþingis um bankahrunið

Hér er hægt að lesa um launin við gerð skýrslu um Íbúðalánasjóð

Launakostnaður var alls 355 milljónir króna

Fram kom í fréttum í apríl þegar skýrlslan var kynnt að kostnaður vegna starfa Rannsóknarnefndar Alþingis um sparisjóðina var rúmlega 600 milljónir króna og er launakostnaður 355 milljónir.

Samanlagður kostnaður við þrjár rannsóknarnefndir Alþingis vegna sparisjóða, Íbúðalánasjóðs og bankahrunsins er vel á annan milljarð króna, að því er fram kemur í frétt Morgunblaðsins þann 11. apríl sl.

Páll Hreinsson, hæstaréttardómari, Sigríður Benediktsdóttir, og Tryggvi Gunnarsson, sátu í …
Páll Hreinsson, hæstaréttardómari, Sigríður Benediktsdóttir, og Tryggvi Gunnarsson, sátu í rannsóknarnefnd Alþingis um fall bankanna. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
Rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð Nefndina skipa þau Sigurður Hallur Stefánsson, …
Rannsóknarnefnd Alþingis um Íbúðalánasjóð Nefndina skipa þau Sigurður Hallur Stefánsson, Jón Þorvaldur Heiðarsson og Kirstín Þ. Flygenring. mbl.is/Styrmir Kári
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert