Heimurinn horfir til norðurslóða

Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, setti þingið í morgun.
Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, setti þingið í morgun. mbl.is/Eggert

Öldum saman voru þjóðir við norðurhjara veraldar einangraðar frá umheiminum en í dag horfir heimsbyggðin þangað „sem sýnir fram á efnahagslegt, pólitískt og umhverfislegt mikilvægi norðurslóða fyrir allar heimsálfur og öll ríki heims,“ sagði Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, við upphaf þingsins Hringborð norðurslóða.

Þingið var sett í morgun í Hörpu, en það sækja rúm­lega 1.400 þátt­tak­end­ur frá um 40 löndum.

Ólafur Ragnar sagði að fyrir nokkrum árum hefðu margir eflaust undrast að stór alþjóðleg ráðstefna um málefni norðurslóða væri haldi á Íslandi. Þetta væri hins vegar í annað sinn sem alþjóðaþingið er haldið og ljóst er að það mun verða árviss viðburður á komandi árum. Þá muni Reykjavík umbreytast í „þorp norðurslóða“ þar sem rætt verði um framtíð og þær miklu breytingar sem séu að eiga sér stað á norðurheimskautinu.

Markmið þingsins er að fá ólíka aðila til að ræða um framtíð norðurslóða, hvort sem um sé að ræða óháð samtök, einstaklinga eða ríkisstjórnir. Umræðan fari fram á lýðræðis- og jafnréttisgrundvelli, sem hafi einkennt ríki á norðurslóðum.

Ólafur Ragnar lagði áherslu á mikilvægi vináttu og samstarf varðandi þær ákvarðanir sem verði teknar um framtíð svæðisins. Það skipti máli fyrir norðurheimskautið en einnig fyrir gjörvalla heimsbyggðina. Hann vonar að gestir Hringborðs Norðurslóða verði allir reynslunni ríkari, upplýstari og búi yfir meiri þekkingu þegar ráðstefnunni lýkur nk. sunnudag.

„Ég hlakka til að hitta ykkur aftur næsta október og á komandi árum. Þá breytist nyrsta höfuðborg heims - í hverjum október - í heillandi, alþjóðlegt þorp norðurslóða,“ sagði Ólafur Ragnar í lok ræðu sinnar.

Hér má sjá magnað myndskeið af myndum Ragnar Axelssonar, ljósmyndara Morgunblaðsins, frá Grænlandi.

mbl.is/Eggert
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert