Um 22% kvenna á aldrinum 18-80 ára hafa verið beittar ofbeldi í nánum samböndum og konur sem koma úr slíkum samböndum glíma við heilsufarsvanda og ótta um eigið öryggi sem og barna sinna. Þetta kemur fram í nýlegri rannsókn Valgerðar S. Kristjánsdóttur sem hún kynnti á Þjóðarspeglinum.
Fyrirlestur Valgerðar nefndist „Að stíga skrefið“ og fjallaði um rannsókn sem hún vann sem meistaraverkefni í félagsfræði við Háskóla Íslands fyrr á árinu.
Valgerður tók viðtöl við tíu konur sem höfðu slitið sambandi við ofbeldisfullan sambýlismann. Mislangt var liðið frá sambandsslitum, allt frá fimm dögum í 22 ár. Konurnar voru á aldrinum 30-57 ára og hluti hópsins hafði búið við heimilisofbeldi af hálfu fleiri en eins manns. Ein þeirra var enn gift ofbeldismanni þegar viðtölin voru tekin.
Margar þeirra áttu sameiginlegt að hafa þurft að yfirgefa vinnumarkað vegna ofbeldisins og að eiga við veikinda að stríða vegna ofbeldisins sem þær höfðu orðið fyrir af hálfu maka.
Óttuðust um eigið líf
Að sögn Valgerðar lýstu konurnar því að þær hafi ekki þorað að slíta sambandinu, meðal annars vegna hótana í þeirra garð. Þegar konurnar loks forðuðu sér út úr sambandinu þá höfðu karlarnir samt sem áður áfram áhrif á þær meðal annars með áreitni og umsátri. Í einhverjum tilvikum óttuðust þær um eigið líf og eins hótuðu mennirnir því að taka börnin frá þeim.
Fjórar kvennanna töluðu sérstaklega um að þær þorðu ekki að búa á jarðhæð eða á hæð sem auðvelt var að komast inn á eftir að þær fóru úr sambandinu af ótta við ofbeldismanninn.
Á sama tíma eru hótanir einnig oft ástæðan fyrir því að þær fóru. Til að mynda óttuðust tvær um eigið líf og fjórar gátu ekki hugsað sér að börn þeirra þyrftu að búa við þessar aðstæður.
Andlegar afleiðingar ofbeldis verstar
Konurnar voru sammála um að ofbeldið hafi haft alvarlegar heilsufarsafleiðingar í för með sér fyrir þær. Bæði andlegar og líkamlegar afleiðingar en andleg vanlíðan sé verst. Þær níu konur sem urðu fyrir líkamlegu ofbeldi höfðu allar á einhverjum tímapunkti sjáanlega áverka eftir ofbeldismanninn. Í flestum tilfellum reyndu ofbeldismennirnir þó að hlífa stöðum sem myndu gera áverkana sjáanlega líkt og andliti, að því er fram kemur í rannsókn Valgerðar.
Ekki góð reynsla af lögreglunni
Af þeim átta sem leituðu eftir aðstoð lögreglu voru aðeins tvær sem sögðust hafa góðar reynslu af lögreglunni.
Mörgum þeirra fannst lögregluþjónana sjálfa skorta skilning á aðstæðum og eins var talað um að þá skorti mýkt. Þær höfðu flestar upplifað það að lögreglan hafi fjarlægt ofbeldismanninn af heimilinu og sögðu það mjög gott. Eða eins og ein benti Valgerði á að annars væri það eins og ef þú myndir tilkynna um þjóf í verslun þinni og þegar lögreglan kæmi á staðinn þá myndi hún fjarlægja verslunareigandann ekki þjófinn.
Skilningsleysi hjá fjölmiðlum og almenningi
Valgerður segir að konurnar hafi talið um þá fordóma sem ríki í samfélaginu í þeirra garð og eins sé skilningur fjölmiðla sem og almennings takmarkaður. Þær telja umræðuna um heimilisofbeldi of litla í fjölmiðlum því öll umræða sé af hinu góða og til þess fallin að auka skilning. Með því að opna umræðuna sé konum auðveldað að losna úr slíkum samböndum.
Varðandi úrbætum í málum sem tengjast heimilisofbeldi nefndu þær að fá hjálp strax og ekki bara á skrifstofutíma. Eins væri mikilvægt að fá aðstoð þeim að kostnaðarlausu því ein helsta hindrunin sem þær stóðu frammi fyrir þegar þær vildu losna undan ofbeldinu eru fjárhagsáhyggjur.