Hópur sem fellur á milli kerfa

Mynd úr safni af ungum framhaldsskólanemum á Covid-tímum.
Mynd úr safni af ungum framhaldsskólanemum á Covid-tímum. mbl.is/Kristinn Magnússon

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins, segir mikilvægt að grípa til frekari aðgerða í geðheilbrigðismálum og bendir á að tölur um depurð meðal barna og unglinga séu sláandi. Staða ungmenna sem eru nýlega byrjuð í framhaldsskóla sé alvarleg, hjá hópi sem hefur fallið á milli kerfa. 

Valgerður mun á fundi borgarstjórnar í dag leggja til að gerð verði úttekt á stöðu geðheilbrigðismála hjá Reykjavíkurborg vegna kórónuveirunnar. Verði tillagan samþykkt verði í kjölfarið unnin aðgerðaáætlun sem fylgt verði eftir strax í byrjun næsta árs. 

Fulltrúum velferðarsviðs, skóla- og frístundasviðs og íþrótta- og tómstundasviðs verði falin gerð úttektar annars vegar og aðgerðaáætlunar hins vegar enda eru það þau svið Reykjavíkurborgar sem málið snertir helst. Vinnan verði unnin í samstarfi við fagaðila á sviði geðheilbrigðismála ásamt fulltrúum frá samtökum sem sinna geðheilbrigðismálum. Lagt er til að vinnu við greiningu og aðgerðaáætlun ljúki eigi síðar en í árslok 2020 og niðurstöðunni verði skilað til borgarráðs. Aðgerðaáætlun komi til framkvæmda í ársbyrjun 2021.

Valgerður segir að borgarfulltrúar Sjálfstæðisflokksins telji að brýn þörf sé á að hlúa betur að þessum málaflokki en hingað til hefur verið gert hjá Reykjavíkurborg. Ekki síst vegna Covid-19 og áhrifa faraldursins á daglegt líf borgarbúa.

Vissulega hafi ýmislegt verið gert á vegum Reykjavíkurborgar en hún heyri það hjá þeim sem starfa í þessum málaflokki að þörfin er mikil á frekari aðgerðum.

Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.
Valgerður Sigurðardóttir, borgarfulltrúi Sjálfstæðisflokksins.

Valgerður hefur haft samband við fólk sem starfar í þessum geira og allir hafi sömu sögu að segja varðandi líðan fólks – hún fer versnandi. Sem er kannski ekki í samræmi við könnun á vegum embættis landlæknis varðandi líðan fólks í fyrstu bylgju kórónuveirufaraldursins þar sem meirihluti mat það svo að líðanin væri góð. 

„Þetta á svo sannarlega ekki við um við alla og það er sláandi að tala við þá sem starfa við þennan málaflokk, geðheilbrigðismál,“ segir Valgerður í samtali við mbl.is. Engu skipti við hvern sé talað. Allir hafi miklar áhyggjur af stöðu mála.

30 útköll vegna sjálfsvíga á 8 mánuðum

Það ástand sem hefur skapast í samfélaginu vegna Covid-19 bitnar illa á viðkvæmum hópum og því miður þá benda bráðabirgðatölur frá ríkislögreglustjóra vegna sjálfsvíga til þess að staða geðheilbrigðismála sé þung. Alls var farið í 30 útköll vegna sjálfsvíga á fyrstu átta mánuðum ársins á meðan útköll á sama tíma árið 2019 voru 18 talsins. Að óbreyttu stefnir í aukið atvinnuleysi og mun þrengri stöðu en núna er í samfélaginu og er því brýn nauðsyn að bregðast við, segir í greingargerð með tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins.

Að sögn Valgerðar er depurð meðal barna og ungmenna sláandi. Hún segir ungmenni á aldrinum 16-18 ára falla á milli kerfa. Þetta er hópur sem er nýbyrjaður í framhaldsskóla eftir að hafa verið í virku félagslífi í grunnskólum og félagsmiðstöðvum á vegum Reykjavíkurborgar.

„Þetta eru börn og hópur sem fellur á milli. Þau eru í engu félagslífi þar sem þau eru ekki að sækja félagsmiðstöðvarnar og eru í raun og veru ekki á ábyrgð borgarinnar. En þau eru börn sem búa í Reykjavík,“ segir Valgerður.

Ungmenni búa við aukna félagslega einangrun og kvíða vegna Covid-19 og sóttvarnaraðgerða. „Það má ekki vera flókið að leita sér aðstoðar. Ef hindranir eins og aðgengi, sjúkdómsgreiningar, fjöldi greininga og biðtími verða hindranir sem mæta einstaklingum sem sækja sér aðstoð er hætta á enn alvarlegri vanda en ella. Ef „hindrunarhlaupið“ verður þungt í vöfum fáum við fleiri aðila sem missa tök á lífinu í alvarleg veikindi.

Mikilvægt er að við beinum athygli okkar að forvörnum og heilsueflingu í ríkara mæli, samhliða því að bæta kerfið sem tekst á við afleiðingar geðraskana. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg hafi skýra stefnumótun og sé leiðandi í því að allir íbúar sveitarfélagsins setji geðheilsuna í forgang. Þrengri félagsleg staða vegna Covid-19 gerir það enn brýnna en ella,“ segir í greinargerðinni.

Valgerður segir að afar mikilvægt sé að ráðist sé í forvarnaraðgerðir og það strax. Því það skorti fræðslu fyrir ungt fólk varðandi ýmis atriði varðandi geðheilbrigði. Til að mynda að tilfinningar séu eðlilegar en þau þurfi að vita hvað sé eðlileg líðan og hvenær ekki, það er hvenær þurfa á aðstoð að halda.

Fundur með ungmennum í borgarstjórn Reykjavíkur í vor.
Fundur með ungmennum í borgarstjórn Reykjavíkur í vor. mbl.is/Árni Sæberg

Greinargerð með tillögu borgarfulltrúa Sjálfstæðisflokksins, Valgerðar Sigurðardóttur: 

„Mjög miklar breytingar hafa orðið á samfélaginu á árinu 2020 enda hefur kórónuveirufaraldurinn sett mark sitt á daglegt líf allra landsmanna. Áhrifanna gætir alls staðar í samfélaginu en sóttvarnaaðgerðir hafa leitt til takmarkana á skólastarfi, ferðafrelsi og félagsstarfi svo fátt eitt sé nefnt. Þá hefur ástandið leitt til félagslegrar einangrunar ýmissa hópa í viðkvæmri stöðu líkt og eldri borgara. Þessi staða verður sífellt þyngri þar sem faraldurinn hefur dregist á langinn, ekki síst meðal viðkvæmra hópa. Með það í huga er mikilvægt að gerð verði úttekt á því hver raunveruleg staða er í Reykjavík. Samhliða þarf að gera aðgerðaáætlun sem útlistar aðgerðir til úrbóta.

Hér er lagt til að vinna við úttekt og aðgerðaáætlun verði í höndum fagaðila í geðheilbrigðismálum frá velferðarsviði, skóla- og frístundasviði og íþrótta- og tómstundasviði enda mjög margir og viðkvæmir hópar innan þessara sviða.

Það ástand sem hefur skapast í samfélaginu vegna COVID-19 bitnar illa á viðkvæmum hópum og því miður þá benda bráðabirgðatölur frá ríkislögreglustjóra vegna sjálfsvíga til þess að staða geðheilbrigðismála sé þung.

Alls var farið í 30 útköll vegna sjálfsvíga á fyrstu átta mánuðum ársins á meðan útköll á sama tíma árið 2019 voru 18 talsins. Að óbreyttu stefnir í aukið atvinnuleysi og mun þrengri stöðu en núna er í samfélaginu og er því brýn nauðsyn að bregðast við. Í ofanálag við kórónuveiruna er ástandið meðal barna og ungmenna ekki eins og best verður á kosið þegar kemur að geðheilbrigðismálum.

Ungmennaráð borgarinnar lagði til á sameiginlegum fundi Reykjavíkurráðs ungmenna og borgarstjórnar 28. febrúar 2017 að Reykjavíkurborg í samstarfi við heilsugæsluna myndi efla geðfræðslu fyrir nemendur á mið- og unglingastigi í grunnskólum Reykjavíkurborgar frá og með haustinu 2019. Tillagan var samþykkt en hefur enn ekki komið til framkvæmda.

Um þessa tillögu ungmennaráðsins er fjallað sérstaklega um í skýrslunni Geðfræðsla í grunnskólum Reykjavíkur sem útlistar tillögur starfshóps að framkvæmd geðfræðslu í grunnskólum borgarinnar. Í skýrslunni segir að börn og unglingar alist upp við flóknara og meira áreiti en áður.

Mikilvægt er að við beinum athygli okkar að forvörnum og …
Mikilvægt er að við beinum athygli okkar að forvörnum og heilsueflingu í ríkara mæli, samhliða því að bæta kerfið sem tekst á við afleiðingar geðraskana segir í greinargerðinni. mbl.is/Hari

Þar segir orðrétt: „Snjalltæki eru orðin hluti af daglegu lífi barna jafnvel frá eins árs aldri. En með þessum miklu breytingum fylgir aukið álag á andlega líðan. Kvíði og streita meðal barna og unglinga er orðið verulegt áhyggjuefni og hefur m.a. birst í aukinni tíðni sjálfskaða. Depurð og þunglyndi hefur aukist verulega sem m.a. hefur komið fram í auknum fjarvistum og brottfalli úr skólum.“ Jafnframt segir í skýrslunni að hegðunarvandi barna og unglinga hafi „aukist til muna og sé sífellt meira áhyggjuefni.

Niðurstöður rannsókna á heilsu og líðan íslenskra barna benda til hærri tíðni geðrænna vandamála íslenskra barna en barna annars staðar í Evrópu og eru algengustu greiningarnar kvíðaröskun og ADHD. Samkvæmt tölum frá embætti landlæknis hefur geðlyfjanotkun vegna tilfinninga- og hegðunarerfiðleika aukist mjög mikið á undanförnum árum.“

Enn fremur segir í sömu skýrslu að rannsóknir hafi sýnt að geðfræðsla sé mikilvægur þáttur í almennum forvörnum og bættri líðan barna. Þá hefur fræðsla um geðsjúkdóma aukið skilning á þessum vanda hjá börnunum en ekki síður gagnvart öðrum sem eru andlega veikir eins og segir í skýrslunni.

„Fræðsla um hvað geðrænir erfiðleikar eru og hvaða bjargráð séu til í samfélaginu hefur sýnt að fordómar hafa minnkað hjá ungu fólki. Kennsla í samskiptum og hvernig er að lifa og búa í sjálfum sér er mikilvæg til að styrkja sjálfsmynd barna, minnka árekstra og einelti og bæta hegðun,“ segir að auki í skýrslunni. Með þetta í huga er mjög mikilvægt að fyrrnefnd tillaga ungmennaráðs Grafarvogs, sem samþykkt var árið 2017, nái fram að ganga og fræðsla verði aukin.

Til viðbótar við fyrri vanda búa börn og unglingar nú við aukna félagslega einangrun og kvíða vegna COVID-19 og sóttvarnaraðgerða. Það má ekki vera flókið að leita sér aðstoðar. Ef hindranir eins og aðgengi, sjúkdómsgreiningar, fjöldi greininga og biðtími verða hindranir sem mæta einstaklingum sem sækja sér aðstoð er hætta á enn alvarlegri vanda en ella. Ef „hindrunarhlaupið“ verður þungt í vöfum fáum við fleiri aðila sem missa tök á lífinu í alvarleg veikindi.

Mikilvægt er að við beinum athygli okkar að forvörnum og heilsueflingu í ríkara mæli, samhliða því að bæta kerfið sem tekst á við afleiðingar geðraskana. Mikilvægt er að Reykjavíkurborg hafi skýra stefnumótun og sé leiðandi í því að allir íbúar sveitarfélagsins setji geðheilsuna í forgang. Þrengri félagsleg staða vegna COVID-19 gerir það enn brýnna en ella.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert