Veðurfar aldanna - Ragnar Axelsson

Inni í opinu standa menn.
Inni í opinu standa menn. mbl.is/RAX

Þar sem ís­inn rym­ur er sér­blað sem fylgdi Morg­un­blaðinu í gær, föstu­dag­inn 31. októ­ber. Þar segja Ragn­ar Ax­els­son (RAX) og fleiri frá ferð sinni um Græn­land í máli og mynd­um.

Mynd­irn­ar sem RAX tók eru í myndasyrpu sem fylg­ir frétt­inni. Þar að auki má hér sjá stutt viðtöl og mynd­brot úr ferð þeirra.

Hægt er að nálg­ast blaðið í pdf-út­gáfu neðst í þess­ari grein. Til að sjá mynd­irn­ar á sem best­an hátt er mælt með að skoða heila opnu í skjal­inu í einu.

Veðurfar ald­anna

TEXTI OG LJÓSMYND­IR: Ragn­ar Ax­els­son - rax@mbl.is

Þokan læðist eft­ir hafflet­in­um þar sem hvít­ir ísris­ar fljóta um þúsund metra djúp­an fjörðinn. Fjallstind­ar tróna hátt til him­ins fyr­ir ofan eik­ar­bát­inn Hildi, sem sigl­ir á milli ís­jak­anna í þröng­um firðinum. Hörður Sig­ur­bjarn­ar­son skip­stjóri er ör­yggið upp­málað þar sem hann sigl­ir milli jak­anna og fylg­ist með hverj­um og ein­um þeirra. Sum­ir minni jak­arn­ir mara í kafi, það er ekki gott að sigla á þá. Tind­ar fjall­anna teygja sig upp í tvö þúsund metra hæð. Það rof­ar annað slagið til í þok­unni; þá koma tind­arn­ir í ljós en hverfa síðan fljótt aft­ur. Þess­ir skörðóttu tind­ar eru nokk­ur hundruð millj­óna ára gaml­ir.

Fjalls­hlíðarn­ar verða eins og lag­terta þar sem þokan teikn­ar hvít­ar lá­rétt­ar lín­ur í berg­vegg­ina sem hverfa nán­ast lóðrétt niður í hafið. Drun­ur heyr­ast úr þok­unni, risa­stór borga­rís­jaki er að bylta sér. Ein­ung­is einn tí­undi hluti jak­ans stend­ur upp úr sjón­um þar sem hann rym­ur háum rómi í miðjum firðinum.

Jak­inn velt­ist fram og til baka í smá­stund. Það er eins og hann sé að virða okk­ur fyr­ir sér, svo ró­ast hann og drun­urn­ar hætta. Íshröngl legg­ur út frá jak­an­um og flýt­ur í sjón­um, það hef­ur hrunið úr einni hlið jak­ans sem breytti jafn­vægi hans. Þess­ir hvítu ris­ar eru eins og lif­andi skúlp­túr­ar í ein­hverju fal­leg­asta galle­ríi á jörðinni. Jak­arn­ir eru mis­stór­ir og ótrú­lega tign­ar­leg­ir, sum­ir eru eins og heiðblá­ir risa­dem­ant­ar. Ef ímynd­un­ar­afl­inu er gef­inn laus taum­ur má sjá alls kyns kynja­ver­ur í ísn­um. Það er eins og þær séu í álög­um þar sem þær stara út úr ís­veggj­un­um.

Gæti heyrt sög­unni til

Höf­in geyma 97,5% alls vatns á jörðinni. Heild­ar­magn ferskvatns á jörðinni er um 2,6%. Jökl­ar heims­ins geyma 2,1% af öllu vatni jarðar, 80% alls ferskvatns, og eru því stærsta forðabúr ferskvatns á hnett­in­um. Ísjak­arn­ir sem fljóta um fjörðinn eru snjór sem féll á jök­ul­inn fyr­ir um þúsund árum; þeir bráðna nú hratt í heims­höf­in þar sem hringrás vatns­ins held­ur áfram í sinni enda­lausu för. Vatnið er hringrás og lyk­ill lífs­ins á jörðinni. Í jökl­un­um eru upp­lýs­ing­ar um veðurfar ald­anna, elds­um­brot og lífið á jörðinni, hundruð þúsunda ára aft­ur í tím­ann. Vatnið er eitt sam­fé­lag sem ferðast um jarðkringl­una með haf­straum­um, ám og vötn­um.

Það er stór­kost­legt að virða fyr­ir sér jak­ana fljóta í haf­inu, en velta því um leið fyr­ir sér að ein­hvern tíma í framtíðinni gætu ís­jak­ar og jökl­ar heyrt sög­unni til og aðeins verið til á mynd­um. Það er ein af­leiðing hnatt­rænn­ar hlýn­unn­ar.

Þess­ir hvítu ris­ar, eins tign­ar­leg­ir og þeir eru, geta verið stór­hættu­leg­ir. Brotni úr þeim stór ís­stykki og falli í hafið geta mynd­ast flóðbylgj­ur sem gera mest­an usla þegar þær skella á land. Hvolfi borga­rís­jaka er ekki gott að vera of ná­lægt, það get­ur verið hættu­legt á litl­um opn­um bát­um.

Dæmi eru um að veiðimenn á litl­um bát­um hafi horfið í hafið þegar borga­rís­jök­um hvolfdi yfir þá. Sum­ir hafa aldrei fund­ist. Heim­spress­an er ekki að missa sig yfir því og það er sjald­gæft að frétt­ir af at­b­urðum norður­slóða rati á þær síður.

Við erum nokkr­ir fé­lag­ar frá Íslandi og Banda­ríkj­un­um að fræðast um þessa nán­ast ósnortnu undra­ver­öld Græn­lands. Til­gang­ur­inn er að rann­saka, fræðast og kvik­mynda þenn­an undra­heim lands­ins og fólks­ins og gera heim­ild­ar­mynd um norður­slóðir, fortíð þeirra og framtíð. Borga­rís­jaki sem er um hundrað metra hár og tölu­vert hærri en Hall­gríms­kirkja, með ri­sagati í miðjunni, tog­ar í okk­ur.

Við sigl­um meðfram hon­um og horf­um agndofa á þessa feg­urð; þessi tign­ar­legi jaki á fáa sína líka í firðinum. Gatið í miðjunni er senni­lega svelg­ur sem hef­ur mynd­ast þegar leys­inga­vatn hef­ur runnið sem stór­fljót eft­ir jökl­in­um og grafið göng niður í hann. Nú hef­ur þessi þúsund ára gamli ísklump­ur brotnað frá jök­ulstáli Græn­lands­jök­uls og fallið í hafið, þar sem hann mun fljóta um ein­hvern tíma og að lok­um bráðna.

Það er eitt­hvað sér­stakt við þenn­an jaka, hann virðist sterk­ur og traust­ur þó að aldrei sé hægt með vissu að treysta á að svo sé. Aðrir jak­ar í ná­grenn­inu eru ekki eins áreiðan­leg­ir. Ísinn í þeim er morkn­ari að sjá og sum­ir líta út fyr­ir að geta brotnað hvenær sem er. Eft­ir að hafa skoðað jak­ann vel er ákveðið að stíga á land og klífa upp í gatið. Við sigl­um yfir ljós­blá­um ísn­um sem mar­ar í kafi og lend­um við brún jak­ans sem stend­ur upp úr sjón­um.

Kynja­ver­ur fylgj­ast með

Það er sér­stök til­finn­ing að horfa ofan í ljós­blá­an ís­inn rétt und­ir gúmmíbátn­um. Stærsti hluti ís­jak­ans er í kafi, við erum að sigla yfir þeim hluta. Það er ekki hættu­laust. Þeir fé­lag­ar Heiðar Guðjóns­son og Hans Humes stökkva upp á flug­hálan ís­inn og ganga á brodd­um í átt­ina að gat­inu. Við hinir róum frá jak­an­um á gúmmíbátn­um, sigl­um í kring­um jak­ann og mynd­um þá þar sem þeir standa í gat­inu. Þeir verða agn­arsmá­ir þar sem þeir standa á jak­an­um, stærðar­hlut­föll­in tala sínu máli. Það er frek­ar ólík­legt að hon­um hvolfi eða hann brotni á sama tíma og við erum við jak­ann.

Það er eins og kynja­ver­urn­ar í ísn­um fylg­ist með þeim fé­lög­um þar sem þeir spíg­spora um heim­kynni þeirra. Hálft and­lit í prófíl hægra meg­in í gat­inu virðist gefa þeim auga og þefa af þeim þar sem nefið teyg­ir sig til þeirra, aðeins efri hluti and­lits­ins er upp úr ísn­um. Það þarf stáltaug­ar til að standa á fljót­andi borga­rís­jaka og ekki er þor­andi að staldra lengi við þó að þessi jaki sé traust­ari en aðrir jak­ar.

Það var viss létt­ir að sigla frá jak­an­um með þá fé­laga, svo­lítið eins og að hafa stigið fæti á tunglið. Heiðar og Hans hafa ýmsa hildi háð við nátt­úru­öfl­in; klifið tinda og skíðað hæstu fjöll Græn­lands í 40 gráðu frosti. Samt eru þeir að klífa borga­rís­jaka í fyrsta skipti. Að standa á borga­rís­jök­um er nokkuð sem menn ættu ekki að stunda á hverj­um degi en á móti kem­ur að heim­ur­inn þarf að fá að sjá mik­il­feng­leika norður­slóða og skynja smæð manns­ins í sam­hengi við nátt­úr­una og þessa ísrisa sem bráðna nú hratt.

Ekk­ert í líf­inu er hættu­laust og stund­um þarf að leggja á sig eitt­hvað um­fram það venju­lega til að ná fram áhrif­um sem fá fólk til að hugsa og velta raun­veru­leik­an­um fyr­ir sér. Raun­veru­leika sem er á und­an­haldi í dag­legu lífi fólks. Það þarf alltaf að leggja eitt­hvað á sig til að kom­ast þangað sem menn ætla sér. Á hvaða sviði lífs­ins sem er.

Ógn fyr­ir heim­inn

Á norður­slóðum er mikið að ger­ast sem er fjarri venju­legu lífi stór­borg­anna en gæti skipt máli fyr­ir framtíð fólks á jörðinni. Þar er bæði ógn fyr­ir heim­inn þegar ís­inn bráðnar og yf­ir­borð heims­haf­anna hækk­ar. Þar eru einnig tæki­færi sem maður­inn mun nýta sér þegar sigl­inga­leiðir norður­slóða opn­ast.

Staða sjáv­ar mun breyt­ast á jörðinni haldi jökl­arn­ir áfram að bráðna. Strand­lengja Græn­lands mun lengj­ast, einnig á Íslandi þar sem Græn­lands­jök­ull virk­ar eins og seg­ulstál á hafið og tog­ar það til sín allt að sjöhundruð kíló­metr­um úti frá landi. Á öðrum stöðum á jörðinni mun sjáv­ar­borð hækka og sum lönd eiga ein­fald­lega á hættu að sökkva, til dæm­is Maldív­eyj­ar. Flest­ir eiga fjöl­skyld­ur, börn og barna­börn.

Gæti verið að þeirra bíði erfiðleik­ar sem hægt væri að af­stýra með rétt­um ákvörðunum í dag? Þykir ekki öll­um vænt um börn­in sín og barna­börn­in? Eru menn til­bún­ir að gefa sér að allt sé í lagi þegar 97% vís­inda­heims­ins segja annað? Eru leiðtog­ar heims­ins til­bún­ir að gera af­kom­end­um sín­um það að berj­ast við eitt­hvað sem ekk­ert verður ráðið við síðar? Eitt­hvað sem þeir hefðu getað af­stýrt?

Það hef­ur hlýnað og kólnað á víxl á jörðinni af nátt­úru­leg­um or­sök­um. Allt ­hef­ur þetta gerst áður með ein­hverj­um hætti. Milan­kovitch-kúrf­an, sem sýn­ir þróun lofts­lags á jörðinni mörg hundruð þúsund ár aft­ur í tím­ann, sýn­ir í fyrsta skipti að kolt­víoxíðkúrf­an er kom­in fram úr hitakúrf­unni.

Regl­an hef­ur verið sú að það hitn­ar og kolt­víoxíðkúrf­an elt­ir hitakúrf­una en nú er hún kom­in fram úr hitakúrf­unni, sem gef­ur til kynna að við meng­um of mikið. Jarðarbú­ar eru um sjö millj­arðar í dag og verða lík­lega orðnir um tíu millj­arðar eft­ir nokk­ur ár. Það þarf að brauðfæða allt þetta fólk og því fylg­ir óhjá­kvæmi­lega meng­un.

All­ir sem um þessi mál fjalla verða að fara að hugsa sinn gang og taka ákv­arðanir sem skipta máli fyr­ir alla jarðarbúa, líka þeir sem eru á þeirri skoðun að þetta redd­ist og ekk­ert sé að. Ábyrgð þeirra allra er mik­il. Vís­inda­menn segja að tím­inn sé naum­ur, aldrei hafi verið meiri kolt­ví­sýr­ing­ur í and­rúms­loft­inu á jörðinni og stór­ar hol­ur séu farn­ar að mynd­ast í sífrer­an­um í Síberíu sem geym­ir me­tangas sem streym­ir út í and­rúms­loftið og er enn hættu­legra en kolt­ví­sýr­ing­ur­inn.

Eld­gos spila sitt hlut­verk. Hver eru áhrif þeirra á lofts­lag heims­ins? Hvaða skoðanir sem menn kunna að hafa á hlýn­un og breyt­ing­um á lofts­lagi á jörðinni hlýt­ur öll­um að vera ljóst að jörðin verður að njóta vaf­ans, við eig­um ekki kost á öðru. Við eig­um ekk­ert annað heim­ili.

Tækn­in tek­ur yfir

Skipt­ar skoðanir eru um hvort eða hvernig eigi að nýta auðlind­ir norður­slóða. Græn­lend­ing­ar vilja sjá nýtt Græn­land og nýta þá mögu­leika sem þeir hafa. Veiðimanna­sam­fé­lagið er á und­an­haldi í þeirri mynd sem það hef­ur verið um ald­ir. Ar­fleifð Græn­lend­inga sem veiðimanna­sam­fé­lags er merki­leg en allt er breyt­ing­um háð. Veiðimenn­irn­ir horfa til þess sem koma skal af æðru­leysi þegar ís­inn verður of þunn­ur til að stunda veiðar eins og þeir hafa gert í 4.000 ár. Tækn­in tek­ur yfir með nýj­um tæki­fær­um.

Í sigl­ingu um Scor­es­bysund og í kring­um Mil­ne-land eru hraust­ir og ver­ald­ar­van­ir menn sem þekkja af eig­in raun hætt­ur víða um heim­inn og í óbyggðum Græn­lands, bæði að vetri og sumri. Fjöl­breytt flóra úr ýms­um grein­um at­vinnu­lífs­ins, vís­ind­um, hag­fræði, fjár­fest­ing­um, kvik­mynda­fram­leiðslu, kvik­mynda­töku og leik­stjórn, ljós­mynd­un, sjó­mennsku, hót­el­rekstri og öðrum at­vinnu­rekstri smellpass­ar í þessa æv­in­týra­ferð.

Áhöfn­in er ekki af verri end­an­um, það eru ekki vanda­mál í þess­um báti. Það sem okk­ur dett­ur í hug að gera, það ger­um við. Dag­legt sjó­sund í eins til tveggja gráða köld­um sjón­um herðir menn og þétt­ir hóp­inn. Menn stinga sér í sjó­inn hver á eft­ir öðrum og synda í smá stund. Það er eins og lík­am­inn vakni og ekki er laust við að auka­orka leys­ist úr læðingi eft­ir sundið. All­ir eru á verði, hver fyr­ir ann­an, ef eitt­hvað kæmi fyr­ir í sund­inu. Fyllsta ör­ygg­is er gætt og eng­inn er of lengi í sjón­um; hita­stig sjáv­ar leyf­ir það ekki.

Eins og geng­ur í líf­inu eru ekki all­ir með sömu skoðanir á mál­un­um. Það er fróðlegt að hlusta á skoðanir sem víkka sjón­deild­ar­hring­inn og auka þekk­ingu allra um borð. Það er ekki ónýtt að fá fyr­ir­lestra á skút­unni á hverju kvöldi frá fær­ustu mönn­um í heim­in­um, um jarðfræði og sögu Græn­lands, millj­arða ára aft­ur í tím­ann og yfir í hag­fræði og efna­hags­mál og tæki­fær­in sem þar liggja. Menn skegg­ræða um fram­vindu mála á norður­slóðum og velta fyr­ir sér af­leiðing­um hlýn­un­ar og tæki­fær­um sem óhjá­kvæmi­lega verða til þegar Græn­lands­jök­ull og heim­skautaís­inn bráðna.

Dag­arn­ir hrein­lega fljúga áfram. All­ir um borð upp­lifa á hverj­um degi eitt­hvað nýtt í undra­heim­um Græn­lands. Morg­un­leik­fim­in um borð felst í því að draga upp akk­er­is­fest­arn­ar, um sex­tíu metra af keðju eft­ir því hvað dýpið er mikið þar sem skipið ligg­ur. Sum­ir gant­ast með að hafa farið á fæt­ur á und­an öðrum til þess að fæla ís­birni frá skip­inu svo all­ir væru ör­ugg­ir þegar þeir kæmu upp á dekk.

Fal­leg­ir ís­birn­ir

„Öryggið verður að vera í fyr­ir­rúmi,“ seg­ir Ingvar Þórðar­son kvik­mynda­fram­leiðandi glott­andi og bæt­ir svo við: „Þetta voru mjög fal­leg­ir ís­birn­ir sem ég rak á flótta. Ann­ar var sér­stak­lega stór, það var ekki þor­andi að sýna ykk­ur hann.“

Svefndrukk­in and­lit átta sig ekki strax á því hvort ís­birn­ir hafi verið á sveimi en gera það á end­an­um. Hver hef­ur ekki gam­an af smá sprelli? Það ger­ir dag­ana bara skemmti­legri.

Hafra­graut­ur og lýsi í morg­un­mat! Það vant­ar ekki að Ró­bert kokk­ur er kom­inn á fæt­ur á und­an öll­um með allt klárt. Þannig er það alla daga í ferðinni.

Jarðfræðin er skoðuð á Rauðueyju og fleiri stöðum. Þar eru merki­leg­ir berg­gang­ar sem eru svipaðir þeim sem eru að mynd­ast neðanj­arðar í eld­gos­inu á Íslandi í dag. Har­ald­ur Sig­urðsson, pró­fess­or í jarð- og eld­fjalla­fræði, er í ess­inu sínu og not­ar ham­ar­inn óspart við að brjóta grjót og sjá hvað það hef­ur að geyma.

Skriðjök­ull geng­ur í sjó fram þar sem jök­ulstálið slút­ir fram, það get­ur fallið í sjó­inn á hverri stundu. Sums staðar í hlíðum fjall­anna má sjá gil og skriður þar sem jök­ull­inn hef­ur hopað. Litl­ar stein­völ­ur þeyt­ast niður bratt­ar hlíðar jök­uls­ins þar sem hann hef­ur rutt upp grjó­töldu í fjöru­borðinu. Hafa þarf var­ann á og fylgj­ast með þegar rúllandi stein­ar koma þjót­andi. Óskar, Heiðar og Hans ganga á jök­ul­inn, sem er mikið sprung­inn. Þokan skríður í fjalls­hlíðinni fyr­ir ofan þá og teyg­ir sig til þeirra fé­laga, sem verða agn­arsmá­ir þar sem þeir spíg­spora um jök­ul­inn.

Inni í firðinum rek­umst við á mann­vist­ar­leif­ar Inúíta. Það er fyr­ir til­vilj­un að við finn­um rúst­ir af manna­bú­stað sem eru vart sjá­an­leg­ar leng­ur. Har­ald­ur Sig­urðsson og Hörður Sig­ur­bjarn­ar­son skip­stjóri ákveða að sigla í land þar sem Har­ald­ur tel­ur að Inúít­ar hafi haft bú­setu fyrr á öld­um. Hann er van­ur að finna gaml­ar rúst­ir og byggðir á eld­fjalla­eyj­um. Gengið er á land og leitað, Har­ald­ur geng­ur um og rann­sak­ar við fjöru­borðið og upp í hlíðar fjalls­ins. Ingvar Þórðar­son mund­ar riff­il­inn, til­bú­inn að verja hóp­inn geri ís­birn­ir vart við sig. Ingvar hef­ur marga fjör­una sopið á lífs­ins leið – ekk­ert fer fram­hjá hon­um! Hann er með augu veiðimanns­ins.

Er þetta ekki hús?

„Nei, er þetta ekki hús?“ hróp­ar Diddi skip­stjóri, aflakló til margra ára, og bend­ir á grastóft­ir með hlöðnu grjóti. Það var ekki auðvelt að sjá rúst­irn­ar, sem voru falln­ar og orðnar hluti af lands­lag­inu. Það lít­ur út fyr­ir að þangað hafi eng­inn komið áður eða áttað sig á því að þarna séu rúst­ir af bú­stað manna. Morkið og veðrað bein með gati stend­ur út úr veggjatóft­inni, gæti verið úr kaj­ak. Beinið er fjar­lægt var­lega til ald­urs­grein­ing­ar. Annað er látið vera, forn­leifa­fræðing­ar eiga greini­lega eft­ir að koma á staðinn.

Talið að Inúít­ar hafi komið á þess­ar slóðir fyr­ir meir en þúsund árum. Gætu rúst­irn­ar verið svo gaml­ar? Ald­urs­grein­ing á bein­inu mun leiða það í ljós.

Senni­lega eru þess­ar rúst­ir af hlöðnu grjót­húsi frá því fyr­ir litlu ís­öld­ina , sem hófst í kring­um 1400. Áin hef­ur hugs­an­lega rutt burt hluta af litlu þorpi eða húsaþyrp­ingu þegar hún hef­ur ruðst fram í leys­ing­um, en húsið er rétt við ána þar sem hún fell­ur í sjó­inn. Fal­legt út­sýni hef­ur verið úr kof­an­um þar sem fjalla­sal­ur­inn gnæf­ir yfir fjörðinn og veiðilend­ur Inúít­anna. Hvað varð um fólkið veit senni­lega eng­inn, lík­legt er að þarna hafi það borið bein­in. Það er nokkuð ljóst að fáir hafa komið í land á þess­um stað.

Á öðrum stað í firðinum eru set­lög frá júra­tíma­bili jarðsög­unn­ar, þar eru stein­gerv­ing­ar sem eru yfir hundrað og fimm­tíu millj­ón ára gaml­ir. Það er spenna í loft­inu. Mun­um við finna spor eft­ir risaeðlur sem spíg­sporuðu um á þess­um slóðum fyr­ir hundrað og fimm­tíu millj­ón árum? Fund­ist hafa spor við flug­völl­inn Consta­ble Po­int. Ekki finn­um við risaeðluspor í þess­ari ferð en kuðung­ar eru í stein­um, stein­gerðir, hundrað og fimm­tíu millj­ón ára gaml­ir.

Har­ald­ur var ekki lengi að finna stein­gerv­inga. Það virðist vera sér­grein hans að finna eitt­hvað sem eng­inn sér, eins og þorp sem hvarf í eld­gos­inu á Tam­bora. Har­ald­ur á ótrú­leg­an fer­il sem vís­indamaður og hef­ur margoft lent í svipuðum aðstæðum og Indi­ana Jo­nes.

Við rann­sókn­ar­störf á Haítí, þar sem Har­ald­ur og aðstoðar­menn hans, Steve Carey og Steve D’Hondt, voru að rann­saka 65 millj­ón ára göm­ul set­lög, voru þeir elt­ir af mönn­um með sveðjur sem tor­tryggðu vinnu þeirra sem vís­inda­menn. Set­lög­in á Haítí höfðu að geyma glerperl­ur, þær einu á jörðinni sem hafa varðveist, og sönnuðu við efna­grein­ingu hvernig risaeðlun­um og meiri­hluta líf­rík­is jarðar var út­rýmt.

Gler­perlurn­ar voru úr stóru spreng­ing­unni fyr­ir 65 millj­ón árum þegar 10 kíló­metra breiður loft­steinn skall á Yucat­an-skaga í Mexí­kó, senni­lega versta stað sem hann gat lent á á jörðinni. Hefði loft­stein­inn lent í sjón­um væru risaeðlurn­ar enn ríkj­andi á jörðinni. Myrk­ur og fimb­ul­kuldi var um alla jörð í nokk­ur ár eft­ir spreng­ing­una og nýj­ar teg­und­ir dýra urðu til. Eld­fjall á Íó, einu tungla Júpíters, heit­ir í höfuðið á Har­aldi og er það vel við hæfi. Mætt­ust þeir fé­lag­ar Har­ald­ur og Indi­ana Jo­nes á götu er ekki ólík­legt að sá síðar­nefndi myndi hneigja sig fyr­ir Har­aldi!

Það er viss söknuður að sigla út úr firðinum, þess­um kynn­gi­magnaða heimi óbyggða sem á fáa sína líka á jörðinni. Ittoqqortoormiit, þorp í mynni fjarðar­ins, þar sem all­ir sem eft­ir eru á svæðinu búa, tel­ur um 400 manns. Þetta er eitt af­skekkt­asta þorp á Græn­landi og ná­læg­asta þorp er á Íslandi. Hver framtíð þorps­ins er ekki vitað verður, sum­ir vilja leggja það í eyði en heima­menn vilja búa þar áfram. Sára­fá­ir milli þrítugs og fimm­tugs eru í þorp­inu, er okk­ur sagt.

Konu bjargað úr brenn­andi húsi

Bjalla hring­ir og fjór­hjól kem­ur eft­ir veg­in­um á hraðferð, það er slökkviliðið. Kviknað er í húsi. Konu er bjargað úr brenn­andi hús­inu út um glugga á þak­inu. Fólk úr þorp­inu dríf­ur að og horf­ir á þar sem slökkviliðsmenn ná að kæfa eld­inn. Kon­an er leidd á braut sótsvört af reyk. Lík­lega hef­ur kviknað í út frá síga­rettu.

Lítið þorp, Kap Hope, er yf­ir­gefið. Hauskúpa af sauðnauti er eins og tákn fyr­ir auðn, hús­in eru sum að hruni kom­in. Spor eft­ir ís­björn er í fjörusand­in­um og bát­ur hef­ur graf­ist í sand­inn. Sjór­inn er að brjóta hann.

Við lend­um í þorp­inu á gúmmíbátn­um, sem fyll­ist af sjó í brim­inu. Sum­ir falla í sjó­inn. All­ir eru orðnir renn­andi blaut­ir, samt er gengið um þorpið og skoðað. Dap­ur­legt er að sjá þorpið drabbast niður.

Veðrið er að herða. Haust­lægðirn­ar eru byrjaðar að tala sínu máli, vind­ur­inn gnauðar, það er stutt í vet­ur­inn. Átta menn í litl­um gúmmíbát sigla frá yf­ir­gefnu þorp­inu, við erum komn­ir út á ball­ar­haf þar sem skút­an bíður eft­ir okk­ur. Það er þögn í gúmmíbátn­um sem skopp­ar á öld­un­um, hver hugs­ar sitt.

Ljóst er að all­ir eru sátt­ir við þessa æv­in­týra­ferð sem eng­inn mun gleyma. Margt var að sjá í viku sigl­ingu um ein­hvern magnaðasta fjörð sem hægt er að hugsa sér. Síðustu klukku­tím­ana virðum við fyr­ir okk­ur risa­vaxna borga­rís­jaka fljóta í mynni fjarðar­ins, þeir munu fljót­lega frjó­sa fast­ir. Þorpið fær nýtt út­sýni á hverj­um vetri með nýj­um jök­um. Ísjak­arn­ir fá að vera jak­ar í einn vet­ur en svo bráðna þeir þegar vor­ar á ný.

Takið eftir fólkinu í neðra vinstri fjórðungi til að sjá …
Takið eft­ir fólk­inu í neðra vinstri fjórðungi til að sjá stærðina á ís­breiðunni. mbl.is/​RAX
mbl.is

Bloggað um frétt­ina

Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert