Um 7% gerenda kynferðislegs ofbeldis gagnvart börnum eru konur en 3,6% skjólstæðinga Stígamóta hafa verið beittir kynferðislegu ofbeldi af hálfu kvenna. Því konur nauðga líka. Þetta er meðal þess sem kom fram í fyrirlestri Hilmars Jóns Stefánssonar á Þjóðarspegli Háskóla Íslands.
Á Íslandi má áætla að um 17% barna hafi verið beitt kynferðislegu ofbeldi fyrir 18 ára aldur og að um 7% gerenda kynferðisofbeldis gagnvart börnum á Íslandi séu konur. Þetta er meðal þess sem kom fram í rannsókn sem Hilmar Jón vann í fyrra og fjallar um í meistaraprófsritgerð sinni í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands.
Ranghugmyndir og fordómar í samfélaginu
Í erindi sínu á Þjóðarspeglinum lýsti Hilmar þeim ranghugmyndum og fordómum sem ríkja í garð þeirra sem verða fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu kvenna. Viðurkenndi hann að hafa sjálfur verið með fordómafullar hugmyndir og ekki gert sér grein fyrir því að konur beittu drengi slíku ofbeldi og sagðist hafa talið, líkt og margir aðrir, að konur tækju þátt í slíku að áeggjan karla. En eftir að hafa kynnt sér málið komst hann á aðra skoðun og fordómarnir fóru.
Hann tók sem dæmi að þegar hann vann rannsókn sína hafði kona hafi aldrei verið dæmd fyrir kynferðisbrot gagnvart börnum á Íslandi. Fyrr á þessu ári hafi hins vegar fimmtug kona verið dæmd fyrir kynferðislegt ofbeldi gagnvart tíu ára dreng.
Enginn sagði frá fyrr en á fullorðinsárum - skömmin var svo mikil
Hilmar Jón tók viðtöl við fimm karlmenn á aldrinum 30 til 65 ára sem höfðu verið misnotaðir kynferðislega af konum í æsku. Helstu niðurstöður rannsóknarinnar eru þær að enginn af viðmælendunum sagði frá kynferðisofbeldinu fyrir 18 ára aldur. Flestir þeirra þögðu langt fram á fullorðinsárin með tilheyrandi skömm og sektarkennd. Allir viðmælendurnir greindu frá mikilli vanlíðan á fullorðinsaldri, til að mynda þunglyndi, kvíða, félagsfælni, sjálfskaðandi hegðun, lélegri sjálfsmynd, að þeir ættu erfitt með að setja öðrum mörk og ættu í erfiðleikum með kynlíf og náin sambönd.
Að sögn Hilmars ætlaði hann að taka viðtöl við fleiri karlmenn sem hefðu orðið fyrir slíku ofbeldi en hluti hópsins treysti sér ekki til þess að taka þátt.
Flestir 7-11 ára þegar þeir voru beittir kynferðislegu ofbeldi
Hann segir að það hafi komið á óvart hversu ungir drengirnir voru þegar ofbeldið hófst en flestir voru 7-11 ára gamlir og sá yngsti var fimm ára gamall. Misjafnt var hversu oft drengirnir urðu fyrir ofbeldinu, allt frá einu skipti upp í að vera dagleg áreitni í mörg ár. Oftast var um gróft kynferðislegt ofbeldi að ræða, meðal annars að bera kynfæri sín fyrir framan barnið, káf innan klæða á kynfærum barns og munnmök.
Hilmar lýsti upplifun eins drengsins sem varð fyrir kynferðislegu ofbeldi af hálfu móður sinnar:
Hvað er blíða? Hvað er örvun? eða girnd?
„...Það sem ég skildi ekki, þá var ég 7 ára... ég áttaði mig ekki á því, ég hélt að það að þvo kynfæri væri bara að þvo kynfæri, skilurðu, ég túlkaði það ekkert meira.. ég túlkaði það sko ekki einu sinni sem brot... og þetta ágerist eftir því sem ég varð eldri... þegar maður er ungur þá skilur maður ekki... svona vissa hluti og maður kann ekki að greina á milli, hvað er fikt? hvað er blíða? og hvað er einhver örvun? eða ... girnd? ... er eitthvað sem kemur seinna, kannski ekki fyrr en maður fer að fá hvolpavitið...“
Konurnar sem beittu þá ofbeldi voru bæði innan fjölskyldu, til dæmis móðir og systir og eins nágrannar og í einu tilviki ókunnug kona. Allir nema einn þeirra töluðu um að hafa orðið fyrir kynferðislegri örvun á með kynferðisofbeldið átti sér stað og þá togstreitu sem það olli þeim.
Hefur áhrif á allt þeirra líf
Að sögn Hilmars áttu þeir allir erfitt með að segja frá ofbeldinu sem þeir höfðu orðið fyrir og skömmin yfirsterkari þörfinni að segja frá. Sumir hafi jafnvel íhugað að taka þetta leyndarmál með sér í gröfina en kvölin var svo mikil að það var valið á milli þess að segja frá eða fremja sjálfsvíg.
Þetta hefur litað allt þeirra líf og leituðu þeir í áfengi og vímuefni til þess að deyfa kvölina. Allir hafa þeir glímt við skömm, kvíða og þunglyndi. Eins hafði þetta áhrif á skólagöngu þeirra, kynlíf og tengsl við eigin börn. Þeir hafa átt í erfiðleikum með samskipti við konur og einhverjir hafa leitað á náðir kynlífs og þráhyggju á því sviði. Einn þeirra lýsti því meðal annars hvernig hann sótti í klám á unglingsárum.
Að sögn Hilmars voru sjálfsvígshugsanir algengar meðal viðmælenda hans og einhverjir þeirra höfðu gert slíkar tilraunir.
Eins og hér kom fram að framan höfðu þeir flestir upplifað að verða fyrir kynferðislegri örvun við kynferðisofbeldið sem olli því að þeir upplifðu innri togstreitu og truflaði þetta þeirra eigið kynlíf síðar á lífsleiðinni. Jafnframt leituðu þeir í brotin sambönd við alkóhólista og eða þolendur kynferðisofbeldis.
Þögnin er besti vinur gerandans
Hilmar ræddi einnig um þolendur sem verða að gerendum. Hann nefndi erlendar rannsóknir sem sýna að hátt hlutfall gerenda kynferðisofbeldis segist hafa verið þolendur kynferðisofbeldis í æsku. Síðan hafi komið í ljós að þeir segja ekki alltaf satt og rétt frá því þegar lygamælir er notaður minnkar hlutfall þeirra sem segjast hafa orðið fyrir slíku ofbeldi í æsku úr 70 í 30%.
En mennirnir sem urðu fyrir kynferðisofbeldinu í æsku hafa allir unnið í sínum málum.
„... þá finn ég pínulítið hálmstrá af einhverju sem heitir frelsi... og þá fór ég að skilja það... að bati felst í því að ég þarf að segja frá öllu og fjarlægjast þetta og fá frelsi og þá byrja sárin að gróa... ég er kominn ákveðin skref frá þessu, búinn að fá ákveðna heilun og bata, ég er í einhverju ferðalagi sem ég hef ekki græna glóru um hvað það er langt... og þess vegna hvet ég menn til þess að fara og leita sér hjálpar vegna þess að það versta sem ég get gert sjálfum mér það er að þegja, þögnin er besti vinur gerandans...“