Mál Tonys Omos tekið fyrir í dag

Á annan tug manna mætti við innanríkisráðuneytið í fyrra til …
Á annan tug manna mætti við innanríkisráðuneytið í fyrra til að mótmæla brottvísun Tony Omos. Rax / Ragnar Axelsson

Aðalmeðferð í máli nígeríska flóttamannsins Tony Omos gegn Útlendingastofnun fer fram í Héraðsdómi Reykjavíkur fyrir hádegi í dag. Omos, sem var neitað um hæli og vísað úr landi, krefst þess að sú ákvörðun verði ógilt og mál hans tekið fyrir efnislega.

Fyrirtöku málsins var þrisvar frestað, í febrúar, í mars og í apríl. Fyrirtakan fór loks fram í lok september en þá lagði Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Omos, fram nýja málsástæðu í málinu, rannsókn og ákæru ríkissaksóknara á hendur Gísla Frey Valdórssyni, aðstoðarmanni innanríkisráðherra

Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður Omos, sagði að bókunin hefði gengið út á að leggja fram upplýsingar um að Gísli Freyr hefði verið ákærður eftir rannsókn ríkissaksóknara vegna brots á trúnaðarskyldu. Er hann grunaður um að hafa lekið upplýsingum um Omos til fjölmiðla.

Omos kom hingað til lands frá Sviss og óskaði eftir hæli sem flóttamaður í október 2011. Þeirri beiðni var hafnað og ákveðið að endursenda hann til Sviss ásamt hælisbeiðninni. Í nóvember 2011 samþykktu svissnesk stjórnvöld að taka við Omos og beiðni hans um hæli á grundvelli Dyflinnarreglugerðarinnar.

Þessi ákvörðun var kærð og þess krafist að beiðni hans um hæli hér á landi fengi efnismeðferð. Innanríkisráðuneytið staðfesti í október 2013 ákvörðun Útlendingastofnunnar og eftir að Omos gaf sig fram við lögreglu í desember var honum vísað úr landi.

Boðað var til samstöðufundar vegna réttarhaldannna á Facebook af samtökunum No Borders. 

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert