Ekki verkfall hjá læknum í næstu viku

Engin verkföll eru boðuð á Landspítalanum í næstu viku.
Engin verkföll eru boðuð á Landspítalanum í næstu viku. mbl.is/Ómar Óskarsson

Engar verkfallsaðgerðir eru boðaðar hjá Læknafélagi Íslands og Skurðlæknafélagi í næstu viku.

Næst leggja læknar niður störf á miðnætti aðfaranótt mánudagsins 17. nóvember og stendur verkfallið yfir í tvo sólarhringa. Daginn eftir, þriðjudaginn 18. nóvember, leggja skurðlæknar niður störf.

Í næstu lotu leggja læknar á kvenna-, barna- og rannsóknarsviði Landspítala, læknar á heilsugæslustöðvum höfuðborgarsvæðisins, læknar á Heilbrigðisstofnunum Vesturlands, Vestfjarða, Norðurlands, Austurlands, Suðurlands og Suðurnesja niður störf.

Næsti fundur í kjaradeilu skurðlækna við ríkið fer fram á mánudaginn en læknar í Læknafélagi Íslands funda ekki fyrr á miðvikudag. 

Skurðlæknar vilja 100% hækkun

Líkt og fram hefur komið fara skurðlæknar fram á upp undir 100% hækkun á grunnlaunum nýútskrifaðra sérfræðinga. Skurðlæknar hafa verið samningslausir í tíu mánuði. Þeir fara ekki fram á fasta prósentuhækkun en þeir fara fram á að laun þeirra verði svipuð og í nágrannalöndunum.

Ekki er óalgengt að nýútskrifaður sérfræðingur í skurðlækningum í Svíþjóð sé með 60 til 70 þúsund sænskar krónur í grunnlaun, eða rúmlega eina milljón íslenskra króna. Nýútskrifaður sérfræðingur á Íslandi er aftur á móti með um hálfa milljón í grunnlaun. 

Forsvarsmenn Læknafélags Íslands og samninganefndar félagsins vilja afar lítið segja um kröfur sínar. Líkt og áður hefur komið fram er talið að farið sé fram á 30 til 36% hækkun á grunnlaunum en samninganefnd ríkisins bjóði aftur á móti 3 til 4% hækkun. 

Frétt mbl.is: Hvenær fara læknarnir í verkfall?

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert