Skilorðsbundið fangelsi vegna lekans

Gísli Freyr svarar spurningum blaðamanna eftir að dómur var kveðinn …
Gísli Freyr svarar spurningum blaðamanna eftir að dómur var kveðinn upp í lekamálinu. mbl.is/Kristinn Ingvarsson

Gísli Freyr Valdórsson, fv. aðstoðarmaður innanríkisráðherra, var dæmdur í átta mánaða skilorðsbundið fangelsi í Héraðsdómi Reykjavíkur nú fyrir stundu. Gísli unir dómnum.

Arngrímur Ísberg kvað upp dóminn. Hann ákvað refsingu Gísla átta mánuði en fresta skyldi fullnustu dómsins og skyldi hann falla niður eftir tvö ár haldi Gísli skilorð. Gerist hann hins vegar sekur um slíkt brot aftur hafi dómurinn nú ítrekunaráhrif á mögulegan dóm í framtíðinni.

Málsaðilar hafa fjórar vikur til að áfrýja dómnum til Hæstaréttar. Gísli sagðist myndu una dómnum.  Engan kostnað leiddi af rekstri málsins og verjandi Gísla Freys krafðist ekki málsvarnarlauna en saksóknari hafði krafist þess að Gísli yrði dæmur til refsingar og til greiðslu alls sakarkostnaðar.

Fyrr í morgun játaði Gísli Freyr formlega við dóminn að hann væri sekur af þeim brotum sem á hann væru borin.

Gísli lýsti sig upphaflega saklausan af ákæru í lekamálinu þegar það var þingfest 16. september. Hann var ákærður fyrir brot gegn þagnarskyldu í starfi sínu sem aðstoðarmaður innanríkisráðherra, með því að hafa, á tímabilinu frá þriðjudeginum 19. nóvember 2013 til miðvikudagsins 20. nóvember 2013, látið óviðkomandi í té efni samantektar er bar yfirskriftina „Minnisblað varðandi Tony Omos“.

Ríkissaksóknari segir að upplýsingarnar hafi verið til þess fallnar að hafa áhrif á umfjöllun um málefni Tonys Omos sem hælisleitanda, en þær birtust í Fréttablaðinu og á netmiðlunum visir.is og mbl.is að morgni 20. nóvember 2013.

Ekki sýnt fram á óréttmætan ávinning af lekanum

Fram kemur í dómi héraðsdóms að við ákvörðun refsingar var haft í huga að Gísli játaði ekki brot sitt fyrr en komið var að aðalmeðferð og eftir að komið höfðu fram ný gögn í málinu.

„Í minnisblaðinu, sem ákærði kom á framfæri við fjölmiðla, var að finna viðkvæmar persónuupplýsingar eins og í ákærunni greinir. Hins vegar er ekki fallist á að sýnt hafi verið fram á að ákærði hafi komið minnisblaðinu á framfæri í því skyni að afla sér eða öðrum óréttmæts ávinnings, hvorki fjárhagslegs né annars. Þá hefur ákærði hreint sakavottorð. Samkvæmt þessu verður refsing ákærða ákveðin 8 mánaða fangelsi sem bundin skal skilorði eins og í dómsorði greinir,“ segir í dómi Héraðsdóms Reykjavíkur.

Gísli Freyr tekur í hönd Helga Magnús, saksóknara, eftir að …
Gísli Freyr tekur í hönd Helga Magnús, saksóknara, eftir að dómur hafði verið kveðinn upp. Eiginkona Gísla var einnig mætt í dómssalinn. mbl.is/Kristinn Ingvarsson
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert