„Það er ekki útilokað að höfðað verði nýtt skaðabótamál, það var brotið á mínum skjólstæðingi í krafti þess valds sem ráðuneytinu var falið. Annars hafa hlutirnir gerst hratt undanfarinn sólarhring og við erum að skoða þetta betur,“ segir Stefán Karl Kristjánsson, lögmaður hælisleitandans Tonys Omos, um játningu og dóm Gísla Freys Valdórssonar, fv. aðstoðarmanns innanríkisráðherra, fyrir að hafa lekið trúnaðarupplýsingum um Tony Omos fyrir um ári síðan.
„Ég talaði við Tony í gærkvöldi og lét hann vita af játningunni. Mér hefur ekki gefist færi á að ræða við hann um dóminn. Þetta sýnir fram á að minnst einn starfsmaður í ráðuneytinu hefur ekki gætt fullrar hlutlægnisskyldu. Þá má minn skjólstæðingur ætla það að mál hans hafi ekki hlotið algerlega faglega meðferð innan ráðuneytisins. Það á eftir að koma betur í ljós hverju síðustu atburðir breyta,“ segir Stefán Karl.
Hvort grunnur sé til nýs skaðabótamáls á hendur innanríkisráðuneytinu bendir hann á að þegar aðalmeðferð málsins átti að fara fram þá hafi dómarinn klofið bótakröfuna frá og sett hana yfir í sérstakt mál til að einfalda málarekstur.
„Nú liggur fyrir játning og mér þykir eðlilegt að sú játning taki einnig til vilja til að gera upp við þá sem brotið var gegn.“