Brynjar Níelsson, þingmaður Sjálfstæðisflokks, telur að Hanna Birna Kristjánsdóttir, innanríkisráðherra, eigi að víkja vegna afbrots Gísla Freys Valdórssonar, fyrrverandi aðstoðarmanns hennar. Sú skoðun hans hafi ekki breyst eftir að ráðherrann lýsti sínum sjónarmiðum á þingflokksfundi í gær.
Þetta segir Brynjar á vefsvæði sínu. Þar segir hann að ráðherra beri fulla pólitíska ábyrgð á aðstoðarmönnum sínum. Hafi þeir brotið hegningarlög í störfum sínum fyrir ráðherrann eigi þeir að víkja á grundvelli hlutlægar og pólitískrar ábyrgðar og skipti ekki máli þótt ráðherrann sjálfur hafi ekki brotið af sér.
„Á þingflokksfundi gær fór ráðherrann, ásamt formanni flokksins, ítarlega yfir málið og lýsti sínum sjónarmiðum. Ég virði hennar sjónarmið í málinu eins og hún hefur alltaf virt mín. Mismunandi sjónarmið okkar í þessu máli leiðir ekki til vantrausts af minni hálfu á ráðherrann. Svona til upplýsingar höfum við verið ósammála um fleiri mál, jafnvel prinsippmál, án þess að ég hyrfi frá stuðningi við hana. Sama má segja um fleiri ráðherra,“ segir Brynjar.