Umboðsmaður Alþingis mun ekki birta niðurstöðu frumkvæðisathugunar sem staðið hefur yfir á samskiptum innanríkisráðherra og fyrrverandi lögreglustjóra á höfuðborgarsvæðinu í þessari viku. Þetta kemur fram í tilkynningu á vef umboðsmanns Alþingis.
Þar segir að umboðsmanni hafi í þessari viku borist ábending um tiltekið atriði í tengslum við athugunina sem nú er unnið að því að kanna. „Tekið skal fram að þar er ekki um að ræða samskipti fyrrverandi aðstoðarmanns ráðherra og fyrrverandi lögreglustjóra á Suðurnesjum sem hafa verið til umfjöllunar í fjölmiðlum,“ segir í tilkynningunni.
Af þessum sökum er ekki unnt að birta niðurstöðu athugunarinnar í þessari viku en þess er vænst að athugun á ábendingunni ljúki á næstu dögum. Umboðsmaður vonast til að unnt verði að birta niðurstöðuna í næstu viku.