Rétt ákvörðun sem átti að koma fyrr

Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna.
Katrín Jakobsdóttir formaður Vinstri grænna. KRISTINN INGVARSSON

„Mér finnst þetta rétt ákvörðun. Það er umtalsvert síðan ég taldi að hún hefði átt að stíga alveg til hliðar,“ segir Katrín Jakobsdóttir, formaður Vinstri grænna, um afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem innanríkisráðherra.

Spurð að því hvort hún telji eðlilegt að Hanna Birni ætli að sitja áfram sem þingmaður segir Katrín að það sé annað mál.

„Þetta mál hefur snúist um embættisfærslur hennar sem ráðherra og mér finnst málið snúast um það embætti. Auðvitað verður hún bara að meta það hvort hún hafi traust kjósenda sinna. Ég hef talað um að mér hafi fundist að hún ætti að stíga til hliðar sem ráðherra og stend bara við það,“ segir hún.

Katrín segir að sér hafi fundist sérstakt hvernig talsmenn ríkisstjórnarinnar hafa reynt að draga fremur úr embættismönnum eins og umboðsmanni Alþingis sem hafa haft málið til meðferðar.

„Ég man eftir dæmum um að orð hafi verið látin falla af forystumönnum ríkisstjórnarinnar sem mér hefur ekki þótt bera vott um næga virðingu fyrir þeim embættum sem við höfum til að veita stjórnsýslunni aðhald. Það er auðvitað áhyggjuefni,“ segir hún.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert