Þjóðin læri af lekamálinu

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir að gengið hafi verið fram af mikilli grimmd og jafnvel ódrengskap gegn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur í lekamálinu svonefnda. „Sú hlið málsins hefur verið mjög dökk,“ segir Sigmundur Davíð. Hann segir að eyða þurfi hatrinu sem einkennir umræðuna.

„Hanna Birna hefur þurft að þola mjög mikið. Það hefur reyndar verið alveg ótrúlegt að fylgjast með því hvað komið hefur verið fram af mikilli grimmd gagnvart Hönnu Birnu og ættingjum hennar, sumt af því opinberlega og annað ekki.

Hanna Birna hefur jafnvel þurft að sæta mjög ógeðfelldum árásum og hótunum gagnvart sér og fjölskyldu sinni,“ segir Sigmundur Davíð.

Þjóðfélagsumræðan í röngum farvegi

Forsætisráðherra telur aðspurður að harkan í umræðunni um lekamálið sé afleiðing af hatursumræðu eftirhrunsáranna.

„Ég held að það sé ástæða fyrir alla til þess að hafa áhyggjur af því hvernig þjóðfélagsumræðan hefur þróast. Hún er auðvitað afleiðing af ákveðnum tíðaranda sem hefur verið ríkjandi undanfarin ár. En sá tíðarandi er ekki til þess fallinn að byggja upp og gera samfélagið betra.

Það sem þurfum á að halda er meiri umræða um staðreyndir og þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir og hvernig best sé að nýta þau. Sem sagt raunverulega pólitíska rökræðu og minna af hatrinu,“ segir Sigmundur Davíð.

Mikið álag á fjölskyldu Hönnu Birnu

Hann segist hafa stutt Hönnu Birnu til þess að halda áfram sem innanríkisráðherra.

„Hún naut stuðnings til þess að halda áfram. Hún mat hins vegar stöðuna þannig að það væri tilefni til þess að hætta, ekki síst vegna þess álags sem hún hafði þurft að þola og fjölskylda hennar líka,“ segir Sigmundur Davíð.

Spurður hvort hann sjái fyrir sér að einhver þingmanna Framsóknarflokksins geti orðið innanríkisráðherra segir forsætisráðherra að það hafi ekki verið ákveðið.

„Við Bjarni Benediktsson munum ræða þessa hluti áður en við tjáum okkur um það fjölmiðlum,“ segir Sigmundur Davíð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert