Birgitta Jónsdóttir, þingmaður Pírata, segist ánægð með þá ákvörðun Hönnu Birnu Kristjánsdóttur innanríkisráðherra að segja af sér embætti. Þá ákvörðun hefði hún átt að taka miklu fyrr. Ástæða ákvörðunar Hönnu Birnu er svokallað lekamál en fyrrverandi aðstoðarmaður hennar var dæmdur í skilorðsbundið fangelsi í síðustu viku fyrir að leka upplýsingum um hælisleitanda til lögreglu.
Birgitta segist hins vegar hafa ákveðnar áhyggjur af því að með því að taka ákvörðun um að segja af sér ráðherradómi núna og taka sér hlé frá þingmennsku fram að áramótum sé Hanna Birna hugsanlega að reyna að koma sér hjá því að taka þátt í umræðum á Alþingi um skýrslu umboðsmanns Alþingis um samskipti ráðherrans við Stefán Eiríksson, fyrrverandi lögreglustjóra höfuðborgarsvæðisins, sem væntanleg er á næstunni.
„Mér finnst óheilbrigt hvernig þetta er gert. Ef ég væri flekklaus í svona máli þá myndi ég náttúrlega bara mæta inn á þing og svara fyrir það. Þannig að mér finnst þetta svolítið skrítið. Auðvitað er ég ánægð með að hún segi af sér, það er löngu tímabært. Þetta er búið að vera óþægilegt fyrir marga. En mér hefði fundist betri bragur af því ef hún ætlar að halda áfram sem þingmaður að hún hefði bara mætt í þingið á mánudaginn,“ segir hún.
Birgitta segist vona að hún hafi rangt fyrir sér að Hanna Birna geti vikið sér undan því að mæta á boðaðan fund stjórnskipunar- og eftirlitsnefndar Alþingis þegar skýrsla umboðsmanns þingsins liggur fyrir. Hún hafi verið að reyna að ná í formann nefndarinnar til þess að fá upplýsingar um það. Bagalegt væri ef Hanna Birna væri ekki í þinginu til þess að ræða málið og fyrir vikið gæti opin og hreinskilin umræða ekki farið fram vegna þess að hún væri fjarverandi.