Vilhjálmur Ari Arason læknir hefur sagt starfi sínu lausu hjá heilsugæslu höfuðborgarsvæðisins, en hann segir að ef ekkert verði að gert í heilbrigðiskerfinu á Íslandi munu fleiri sjúklingar deyja að óþörfu.
Hann segir að á sama tíma og vandinn verði alvarlegri og fleiri sjúklingar deyi að óþörfu vegna ófullnægjandi læknismeðferðar á að hefja byggingarframkvæmdir upp á 100 milljarða króna á Landspítalalóðinni.
Vilhjálmur Ari segir ástæðuna fyrir uppsögninni vera staðan í heilbrigðiskerfinu. Ekki liggur fyrir hvert framhaldið verður hjá honum en á þessu stigi sé ekki meira um það segja. Hann á von á því að fleiri uppsagnir lækna séu í farvatninu. Enda sé lítill skilningur hjá stjórnvöldum á því staðan er og það sé ekkert nýtt af nálinni.
„Það hefur ekki verið hlustað á grasrótina og það hefur ekki verið hlustað á fagleg rök,“ segir Vilhjálmur Ari. „Einhverra hluta vegna hefur ekki verið sóst eftir faglegum sjónarmiðum úr grasrótinni.“
Innviðirnir að gefa sig og lausnin er fólgin í steinsteypu
Að sögn Vilhjálms er staðan orðin svo alvarleg að fólk deyi að óþörfu. Hann bendir á krabbameinssjúklinga í því sambandi. Hann hefur varað við byggingarframkvæmdum við Landspítalann og segir að það verði að hlúa að innviðum heilbrigðiskerfisins áður en farið er að byggja úr steinsteypu. Hægt sé að deila endalaust um staðsetningu nýs spítala og eins séu allir sammála um að það er þörf á nýjum spítala en það leysi ekki vandann sem nú blasir við. Steinsteypan sé framtíðarmarkmið því fyrst verði að laga innviði heilbrigðiskerfisins því það eru þeir sem eru að gefa sig, segir Vilhjálmur.
„Heilbrigðiskerfið er orðið veikburða á allt of mörgum sviðum og þróunin í kjaraviðræðum við lækna sl. vikur slæm. Varla er að verða mannað í vissum sérgreinum læknisfræðinnar og við treystum hvað mest á í alvarlegustu veikindum okkar.
Krabbameinslæknar og meltingarlyflæknar orðnir fáir, skurðlæknum fer ört fækkandi og gjörgæslulæknar íhuga flestir uppsagnir. Heilsugæslan mjög veikburða, ekki síst á höfuðborgasvæðinu, sumar heilsugæslustöðvar vart mannaðar læknum lengur og unglæknar flestir að hverfa af landinu. Framtíð landsins og læknanámið að lamast. Myndin í raun svo dökk að ég sleppi að birta hana með að þessu sinni,“ skrifar Vilhjálmur Ari á blogg sitt.
Vilhjálmur Ari segist vera orðinn fullorðinn og hann sé ekki að berjast fyrir eigin hagsmunum ekkert frekar en aðrir eldri læknar heldur hrýs honum hugur við því sem blasi við unglæknum á Íslandi í dag.
„Þjóðin virðist ónýt að sinna sínum nauðsynlegustu málum og nútímalegt heilbrigðiskerfi verður aldrei rekið án lækna. Ekkert frekar en hjá öðrum þjóðum sem við berum okkur saman við varðandi heilbrigði og félagslegt öryggi, sem við viljum flest búa við. Því er ég a.m.k. sjálfur farinn að undirbúa mig fyrir það versta og búinn að segja upp stöðu minni í heilsugæslunni. Ég vona að allir undirbúi sig sem best, hver á sinn hátt og sem það geta, enda stefnir í mikla þjóðarvá. Þjóðarinnar var valið, en sem nú er bölið,“ skrifar Vilhjálmur Ari en sonur hans, Ásgeir Snær, er einn þeirra ungu lækna sem hafa farið frá Íslandi og starfa í útlöndum.