Dómssátt hefur tekist milli Þóreyjar Vilhjálmsdóttur, aðstoðarmanns Hönnu Birnu Kristjánsdóttur, og tveggja blaðamanna og ritstjóra DV. Samið var um kr. 330.000 krónur í sáttaskyni sem Þórey mun láta renna til Stígamóta.
Fréttatilkynning frá Þóreyju:
„Blaðamenn DV, þeir Jóhann Páll Jóhannsson og Jón Bjarki Magnússon, ásamt ritstjórn DV, hafa leitað sátta við mig vegna dómsmáls sem ég höfðaði á hendur blaðamönnunum vegna rangrar fréttar sem blaðið birti 20. júní sl. Ég hef tekið því vel og hefur tekist dómsátt milli okkar.
Í bréfi frá lögmanni DV dags 3. nóvember sl., var farið fram á það við mig að ég félli frá fyrirhugaðri málshöfðun sinni með því að samþykkja dómssátt og hefur nú verið fallist á það.
Ég fagna því að sjálfsögðu að blaðamenn og ritstjórn DV hafi séð að sér og leitað sátta. Ástæðan fyrir málshöfðuninni var að mér fannst holur hljómur í upphaflegri afsökunarbeiðni miðað við þá aðför sem gerð var að mér um og stóð yfir um margra mánaða skeið. Þegar formleg beiðni um sættir loks barst, fagnaði ég því að geta lokið málinu án þess að þurfa að fara með það fyrir dómstóla.
Ritstjórn DV og blaðamennirnir staðfesta með sáttinni að öll þau ummæli sem málshöfðunin snérist um, séu dauð og ómerk og ég er þar með hreinsuð af þeim áburði sem hafður var í frammi.
Mér finnst að lokum mikilvægt að fram komi að kröfugerðin í málinu var í samræmi við það sem íslensk lög gera ráð fyrir í meiðyrðamálum. Að lögð hafi verið einhver áhersla á að fangelsa viðkomandi blaðamenn fyrir ósönn ummæli, er og hefur alltaf verið út í hött.
Samið var um kr. 330.000 krónur í sáttaskyni sem ég mun láta renna til Stígamóta.“
Sjá frétt mbl.is: Vildu mæta Þóreyju í dómssal