„Viljum færa rakarastofuna í stærra herbergi“

Frá viðburðinum Milljarður rís í Hörpu. Gunnar Bragi segir ekki …
Frá viðburðinum Milljarður rís í Hörpu. Gunnar Bragi segir ekki nóg að bekkurinn sé þétt setinn konum þegar umræður um kynjajafnrétti fara fram, heldur verði karlarnir að taka þátt líka. mbl.is/Ómar Óskarsson

Gunnar Bragi Sveinsson utanríkisráðherra segir gagnrýni á svokallaða „rakarastofuráðstefnu“, þar sem ætlunin er að karlmenn ræði jafnréttismál, á misskilningi byggða. Í viðtali við Independent segir Gunnar Bragi að stærstur hluti þeirrar neikvæðu viðbragða sem hann hafi orðið var við hafi tengst þeim misskilningi, eða „miss-understanding“ líkt og Independent skrifar það, um það hvort konum verði boðið sæti við borðið.

Gunnar Bragi segir að konum sé velkomið að taka þátt í mál- og vinnustofum ráðstefnunnar, sem fer fram í höfuðstöðvum Sameinuðu þjóðanna í janúar.

„Hvað er rakarastofa?“ hefur Independent eftir Gunnari Braga. „Það er staður þar sem karlmenn hittast, þar sem þeir láta skera hár sitt eða skegg. Hvað ræða þeir um? Stjórnmál, konur líklega, og þú veist, stöðu sína og svo framvegis.“

„Við viljum færa rakarastofuna í stærra herbergi. Ímyndaðu þér þessar týpísku steríótýpur sem eru ræddar í búningsklefa eða rakarastofu; við verðum að reyna að breyta umræðunni sem við eigum þar inni.“

Ráðstefna, þar sem fulltrúar aðildarríkja Sameinuðu þjóðanna kæmu saman og ræddu „maður við mann“ um ofbeldi gegn konum, var svar Íslands við áskorun leikkonunnar Emmu Watson um að menn tækju virkari þátt í jafnréttisbaráttunni, að því er fram kemur í grein Independent.

Þar kemur einnig fram að fólk hafi klórað sér í hausnum yfir þeirri hugmynd að gera tilraun að framsækinni umræðu um kynjajafnrétti og ofbeldi gegn konum, án þess að sjónarmið kvenna kæmu þar nærri. Þá segir að margir hafi sakað Gunnar Braga um að taka rakarastofuna, þar sem karlkynsímyndin er lærð og styrkt, og setja hana á stærra svið.

Gunnar segir að konum verði ekki meinaður aðgangur að ráðstefnunni.

„Ef þú ætlar að berjast fyrir kynjajafnrétti, eða binda enda á ofbeldi gegn konum, þá verður þú að færa umræðuna til karla og stráka,“ segir Gunnar Bragi. „Af hverju ekki að hvetja þá tl að tala saman?“ spyr hann.

„Við höldum mikið af fundum og málstofum um kynjajafnrétti, þar sem húsið er fullt af konum, en aðeins fáum körlum. Ef þú vilt breyta einhverju, þá verður þú að hafa karlana í herberginu.“

Í grein Independent segir að þrátt fyrir að Gunnar Bragi hafi verið gagnrýndur fyrir framtak sitt, tali hann frá einstöku sjónarhorni. Sem utanríkisráðherra Íslands, tilheyri hann stjórnvöldum í landi sem tróni á toppi lista World Economic Forum yfir stöðu jafnréttismála í 100 löndum.

Þá segir þar einnig að Ísland sé heimili Vigdísar Finnbogadóttur, fyrsta þjóðkjörna kvenleiðtoga heims, sem nýlega kallaði eftir því að háttsettir menn um heim allan kæmu reglulega saman til að ræða jafnréttismál.

Eftir að tilkynnt var um rakarastofuráðstefnuna, sagði Dyan Mazurana, höfundur skýrslu um frið, konur og öryggi, sem samin var fyrir öryggisráð SÞ, að hún bæri vott um þekkingarleysi á sögu þess að konur væru útilokaðar frá ákvarðanatöku.

Samkvæmt Independent segir Gunnar Bragi hins vegar að ráðstefnan verði ekki vettvangur þar sem menn reyna að tala fyrir konur, heldur staður þar sem menn geta öðlast skilning á þeim vandmálum sem felast í hegðun þeirra. Í þeim tilgangi yrði haldið málstofa um spurninguna „Hvað er maður?“

„Við tökum við núna, vinan“

„Karlar geta ekki setið hljóðir hjá“

Gunnar Bragi hefur verið gagnrýndur fyrir rakarastofuráðstefnuna.
Gunnar Bragi hefur verið gagnrýndur fyrir rakarastofuráðstefnuna. mbl.is/Ómar Óskarsson
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert