Skötuilmurinn liggur yfir landinu

Mörgum þykir ómissandi að gæða sér á skötu á Þorláksmessu og var engin breyting á því í dag. Þorláksmessuskata er reyndar ekki nema nokkurra áratuga gömul á Reykjavíkursvæðinu en ævagömul á Vestfjörðum. Og þeim sem líkar ekki siðurinn verða að gera sér að góðu lamandi ilminn sem fylgir.

Meðal annars lögðu margir leið sína um borð í Sæbjörgu í Reykjavíkurhöfn þar sem skata var að sjálfsögðu á boðstólum og það sama var uppi á teningnum á veitingastaðnum Þremur frökkum. Eins og greint var frá á mbl.is í gær er áætlað að meira en 93.000 Íslendingar 18 ára og eldri ætli að borða skötu í dag.

Á Vísindavefnum segir um þennan sið að það hafi tíðkast á árum áður að borða lélegt fiskmeti á Þorláksmessu. Á Suðurlandi var sumstaðar soðinn horaðasti harðfiskurinn en um þetta leyti árs veiddist skata einkum á Vestfjarðamiðum og þótti enginn herramannsmatur ótilhöfð og var því algengur Þorláksmessumatur á þeim slóðum.

„Í aldanna rás tókst Vestfirðingum á hinn bóginn að tilreiða úr skötunni mikið ljúfmeti eins og skötustöppuna, og mörgum þótti það óbrigðult merki þess að jólin væru í nánd þegar lykt tók að berast af skötustöppu.

Eftir því sem leið á 20. öld flykktist fólk úr öllum byggðarlögum á suðvesturhorn landsins, Vestfirðingar ekki síður en aðrir. Þeir söknuðu Þorláksmessuskötunnar og margir reyndu að útvega sér hana úr heimahögum. Smám saman smitaði þessi venja þeirra út frá sér og eftir miðja öldina fóru margar fiskbúðir á höfuðborgarsvæðinu að hafa skötu á boðstólum í desember. Fyrir um aldarfjórðungi fóru svo nokkur veitingahús að bjóða til skötuveislu á Þorláksmessu og þar með varð þetta tíska,“ segir á Vísindavefnum.

Lyktin vegna þvagefnis

Til að skata fái rétt bragð og angan þarf hún að fara í gegnum nokkuð margbreytilegt ferli. Eftir að skatan hefur verið dregin úr sjó er hún skorin upp, börðuð, það er að segja börðin eru losuð frá baki, kvið og hala. Þau eru látin liggja í kös og kæsast.

Áður fyrr var algengast að láta börðin í gryfju með grjóti og torfi ofan á en nú til dags er hún yfirleitt látin kæsast í einhverju íláti. Sitt sýnist hverjum um ílátið.

Í kösinni gerjast skötubörðin eða ryðja sig. Þvagefni sem er í vef skötunnar brotnar þá niður og af því stafar lyktin góðkunna.

Skötuverkendur segja að ilmbrigði þessi gefi til kynna að skatan sé fullkæst

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert