Kínversku stúlkunum tveimur, sem glötuðu vegabréfum sínum hér á landi á Þorláksmessu, var hleypt inn í Bretland þegar þær komu þangað í gærkvöldi. Þetta staðfestir Jón Víðis Jakobsson sem var þeim innan handar hér á landi vegna málsins.
Stúlkurnar, Yushan Chai og Jixin Yu, telja sig hafa skilið handfarangur sinn eftir í rútu á vegum Gray Line, og þar á meðal vegabréfin, á meðan þær fóru í hestaferð. Rútan fór á meðan og önnur kom í staðinn. Rútufyrirtækið segir að farþegar hafi hins vegar verið varaðir við því að rútan myndi ekki bíða á meðan á hestaferðinni stæði. Þá hafi þrisvar verið leitað í rútunni án þess að handfarangurinn hafi fundist. Fyrirtækið geti ekki borið ábyrgð á handfarangri farþega frekar en önnur fyrirtæki í farþegaflutningum.
Stúlkurnar fengu bráðabirgðavegabréf í kínverska sendiráðinu en ekki vegabréfaáritun til Bretlands. Þangað þurftu þær að komast þar sem þær eru við nám í landinu og þurfa að þreyta próf og skila verkefnum í janúar. Þær ákváðu því að láta reyna á það að komast inn í Bretland en þær höfðu einnig orðið sér úti um staðfestingu frá skólunum sem þær stunda nám við á námsvistinni. Það hefur sem sagt gengið eftir. Að öðrum kosti hefðu þær þurft að fara til Kína og þaðan aftur til Bretlands eftir að hafa orðið sér úti um vegabréfaáritun sem hefði getað tekið langan tíma og sett nám þeirra í uppnám.
Ánægð með hvernig Gray Line tók á málinu
Gray Line segist hafa reynt allt til þess að aðstoða stúlkurnar í erfiðleikum þeirra. Meðal annars greiddi fyrirtækið flugið til Bretlands og hótelgistingu hér á landi þann tíma sem þær þurftu að vera hér lengur en til stóð. Í því felist þó engin viðurkenning á ábyrgð heldur hafi aðeins verið reynt að liðsinna þeim í vandræðum þeirra. Jón Víðis tekur undir það að fyrirtækið hafi verið mjög hjálpsamt við stúlkurnar þó það hafi að hans mati tekið aðeins of seint við sér.
Jón segist hafa fengið þau skilaboð frá stúlkunum skömmu fyrir miðnætti í gær að þær væru komnar inn í Bretland og gætu í framhaldinu fengið þá pappíra sem þær þurfi á að halda og haldið áfram námi sínu í landinu.
„Það er rétt að það komi fram að bæði ég og þær erum mjög ánægð með hvernig Gray Line tók á málunum og þá sérstaklega Rúnar Garðarsson [rekstrarstjóri fyrirtækisins], eftir að ljóst var að ekki myndi takast að finna töskurnar, þar sem Gray Line bauðst til að borga þann aukakostnað sem þær urðu fyrir vegna dvalar og flugs. Mín aðkoma fólst aðallega í því að styðja við það sem þær voru að gera, vegalausar í ókunnu landi,“ segir Jón ennfremur.
Fréttir mbl.is:
Allt reynt til að aðstoða stúlkurnar
Fá farið og gistinguna greidda