„Þetta er alveg galin árás“

Kristinn Hrafnsson
Kristinn Hrafnsson AFP

„Lög­fræðing­ur okk­ar í Banda­ríkj­un­um hef­ur þegar sent bréf til Google og kraf­ist skýr­inga á því af hverju þeir spyrntu ekki við fót­um og leituðu alla leiða til að upp­lýsa okk­ur um þessa aðgerð,“ seg­ir Krist­inn Hrafns­son, aðspurður um fregn­ir þess efn­is að Google hafi af­hent banda­rísk­um stjórn­völd­um aðgang að tölvu­póst­um og öðrum gögn­um þriggja starfs­manna Wiki­leaks í tengsl­um við rann­sókn á Wiki­leaks og stofn­anda þess, Ju­li­an Assange. Blaðamenn­irn­ir þrír eru Sarah Harri­son, Joseph Far­rel og Krist­inn sjálf­ur.

Seg­ir Krist­inn það baga­legt að  Google hafi brugðist svona við ekki leitað til dóms­stóla til þess að fá að upp­lýsa sína viðskipta­vini um að þarna væri verið að brjóta á þeim. „Það er eitt­hvað sem Twitter gerði á sín­um tíma. Þeir fengu slíka kröfu og átti allt að vera í fullri lengd og ekki mátti upp­lýsa fólk um það. Twitter sætti sig ekki við það og tók það mál fyr­ir dóm­stóla og vann málið. Þeir sem að voru fórn­ar­lömb þess­ara aðgerða, eins og meðal ann­ars Birgitta Jóns­dótt­ir þingmaður Pírata, fengu upp­lýs­ing­ar um það.“

Kom ekki endi­lega á óvart

Bæt­ir hann þó við að þó svo að af­hend­ing­in séu von­brigði hafi það ekki endi­lega komið hon­um á óvart.

„Mér finnst þetta ekki álits­legt af Google að bregðast svona við og ekki með sköru­legri hætti. En frá mín­um bæj­ar­dyr­um séð kem­ur þetta ekk­ert sér­stak­lega á óvart eft­ir að hafa kynnst yf­ir­mönn­um þess fyr­ir­tæk­is,“ seg­ir Krist­inn. „Mér finnst það þó at­hygl­is­vert eft­ir þau orð sem að for­stjóri Google, Eric Schmidt lét falla í sam­tali við Ju­li­an Assagne fyr­ir nokkr­um miss­er­um síðan. Þá sagði hann að Google ætlaði sér að vera fyr­ir 21. öld­ina það sem her­gagna­fram­leiðend­ur voru á 20. öld­inni, það er að segja í lyk­il­stöðu á þess­um tíma þar sem upp­lýs­ing­ar eru svona mik­il­væg­ar. Sá sem hef­ur aðgang að þeim er í lyk­il­stöðu.“

Krist­inn seg­ir að Google hafi nú komið sér þannig fyr­ir í góðu sam­starfi við banda­rísk stjórn­völd. „Upp­lýs­ing­ar eru vald og Google hef­ur komið sér vel fyr­ir í lyk­il­stöðu. Nú er komið af stað sam­starfs­verk­efni á milli banda­ríska hers­ins og Google varðandi ýmis mál sem snerta þeirra skil­grein­ingu á sín­um ör­ygg­is og varn­ar­mál­um.“

Ráðist gegn blaðamönn­um og hags­mun­um þeirra

Hann seg­ir að með þessu sé ráðist gegn blaðamönn­um og hags­mun­um þeirra. „Mér finnst þetta vera stef í þessu öm­ur­lega lagi sem maður er að heyra oft­ar og oft­ar. Það er að segja hvernig menn ráðast gegn blaðamönn­um og hags­mun­um þeirra. Banda­rík­in hafa löng­um verið talið fyr­ir­mynd­ar­ríki varðandi frjálsa blaðamennsku á síðustu árum. En síðasta ára­tug höf­um við séð aðgerðir sem eru hreint skelfi­leg­ar. Þannig að blaðamenn eiga sér lítið skjól, sér­stak­lega þeir sem fjalla um ör­ygg­is- og varn­ar­mál. Þetta er eitt­hvað sem er full­kom­lega ólíðandi.“

Seg­ir Krist­inn að þess­ar aðgerðir sendi frem­ur kald­ræn skila­boð til blaðamanna. „Það er lítið skjól þegar að mönn­um er spyrnt sam­an við glæpa­menn með sinni vinnu. Í þess­um úr­sk­urði er vísað til fjölda laga­greina sem fela í sér sam­tals 45 ára fang­elsi. Þarna er verið að tala um meint lög­brot á njósna­lög­gjöf­inni, tölvu­ör­ygg­is­brot og svo fram­veg­is,“ seg­ir Krist­inn. „Það eru frek­ar kald­ræn skila­boð til blaðamanna sem gætu átt í hættu á að sjá slík­um laga­grein­um veifað næst þegar þeir fjalla um varn­ar- og ör­ygg­is­mál.“

Sinna ein­fald­lega hlut­verki inn­an fjöl­miðlaum­hverf­is­ins

Krist­inn seg­ist hafa rætt þessi máli við stofn­anda Wiki­leaks, Ju­li­an Assange, en hann dvel­ur nú í sendi­ráði Ekvador í Lund­ún­um.  Þar hef­ur hann haldiið sig í tvö ár til þess að forðast að vera fram­seld­ur til Svíþjóðar en þar er hann eft­ir­lýst­ur fyr­ir kyn­ferðis­brot. 

Assange hef­ur nú for­dæmt aðgerðirn­ar harðlega í yf­ir­lýs­ingu.

„Þetta er al­veg gal­in árás á mig, mína koll­ega og sam­tök­in sjálf. Við erum ein­fald­lega að sinna ákveðnu hlut­verki inn­an þessu fjöl­miðlaum­hverfi. Við erum hluti af því og viður­kennt af öll­um.“

mbl.is
Fleira áhugavert

Innlent »

Fleira áhugavert