Hvað sagði Sigmundur Davíð?

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra.
Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra. mbl.is/Árni Sæberg

Sigmundur Davíð Gunnlaugsson forsætisráðherra segir það rangt eftir sér haft á mbl.is að þjóðin skuli læra af lekamálinu. Hið rétta er að forsætisráðherra sagði að „menn“ þyrftu að læra af málinu. Annars vegar varðandi meðferð trúnaðarupplýsinga og hins vegar varðandi umræðumenninguna í landinu. Mbl.is birtir hér að neðan viðtalið í heild, orðrétt.

Forsaga málsins er sú að föstudagskvöldið 21. nóvember sl. birtist viðtal við Sigmund Davíð á mbl.is með fyrirsögninni „Þjóðin læri af lekamálinu“. Tilefni viðtalsins var afsögn Hönnu Birnu Kristjánsdóttur sem innanríkisráðherra þá fyrr um daginn. 

Sigmundur Davíð sendi í kjölfarið Sigurjóni Magnúsi Egilssyni, stjórnanda útvarpsþáttarins Sprengisands, sms-skilaboð að morgni sunnudagsins 23. nóvember þar sem hann sagði rangt eftir sér haft á mbl.is. 

Lóa Pind Aldísardóttir, sjónvarpskona á Stöð 2, bar fyrirsögnina undir Sigmundur Davíð í þættinum Kryddsíld á gamlársdag og kvaðst Sigmundur Davíð þá aldrei hafa tekið svona til orða.

Umrædd frétt á mbl.is 21. nóvember sl. var svo aftur til umræðu í þinginu í vikunni er forsætisráðherra sagði fréttina ranga. „Ég sagði aldrei að þjóðin þyrfti að læra af mál­inu, þó svo að það hafi verið fyr­ir­sögn í Morg­un­blaðinu,“ sagði Sigmundur Davíð en frétt um málið má nálgast hér.

Í tilefni af þessari umræðu er fréttasamtalið við Sigmund Davíð hér birt í heild sinni, óstytt, en það var tekið símleiðis að kvöldi föstudagsins 21. nóvember. Samtalið er hér birt með millifyrirsögnum. Tekið skal fram að höfundur þessarar greinar tók umrætt viðtal.

Gengið fram af grimmd gagnvart Hönnu Birnu

Það varðar þetta mál sem nú er komið á þann stað að Hanna Birna segir af sér. Ef við byrjum á þínum viðbrögðum. Hver eru þín viðbrögð við þessari ákvörðun Hönnu Birnu?

„Það er mikil eftirsjá að Hönnu Birnu úr ríkisstjórninni. Hún er búin að vera mjög öflugur ráðherra. Það kom á óvart að þetta skyldi gerast á þessum tímapunkti, þó að hún hafi reyndar verið búin að segja að hún væri að velta fyrir sér stöðu sinni í stjórnmálum. Maður getur svo sem skilið rök hennar fyrir þessari ákvörðun. Hún er búin að þurfa að þola mjög mikið. Það hef­ur reynd­ar verið al­veg ótrú­legt að fylgj­ast með því hvað hefur verið komið fram oft og tíðum af mik­illi grimmd gagn­vart henni og jafnvel ætt­ingj­um henn­ar, sumt af því op­in­ber­lega og annað ekki. Þannig að þetta hefur verið mikið álag og maður skilur að hún telji að það sé kannski einhverjum takmörkunum háð hversu lengi er hægt að setja undir slíku.“

Hart gengið fram gegn Hönnu Birnu

Hafið þið sem nærri henni standið upplýsingar eða vitneskju um að það hafi verið beitt ódrengskap í aðferðum gegn henni?

„Menn hafa náttúrlega séð það opinberlega að það hefur verið farið mjög hart fram víða og oft og tíðum ómálefnalega, að menn nota orð sem ætti helst ekkert að nota í opinberri umræðu og jafnvel hótanir og allt slíkt sem nöfnum tjáir að nefna. Þannig að sú hlið málsins er náttúrlega mjög dökk.“

[Símasamband slitnar – Viðtal hefst á ný]

Þú varst að ræða að þessi hlið mála væri mjög dökk. Gætirðu útskýrt það örsnöggt, botnað það?

„Það hefur náttúrulega víða verið komið fram ekki bara af hörku gagnvart henni heldur hefur hún jafnvel mátt sæta mjög ógeðfelldum árásum og hótunum og slíku, gagnvart henni og fjölskyldu hennar. Það er eitthvað sem maður vill að sjálfsögðu ekki sjá gerast í íslensku samfélagi.“

Ákvörðun yrði tekin fyrir áramót

Nú kom tilkynning frá innanríkisráðuneytinu [í ágúst 2014] um að dómsmálin færist yfir til þín. Hvað gerist næst? Verða dómsmálin áfram á þinni hendi?

„Eins og sagt var frá þá þegar, þegar þetta var tilkynnt, var frekar gert ráð fyrir að þetta yrði til skemmri tíma. Ég geri ráð fyrir að þetta heldur flýti því að það komist annað fyrirkomulag þar á. En ég á eftir að fara yfir það hvaða fyrirkomulag hentar best með formanni Sjálfstæðisflokksins.“

Áttu von á því, Sigmundur Davíð, að það verði tekin ákvörðun um það fyrir áramót hver framtíðarskipan í innanríkisráðuneytinu verður og hver verður ráðherra?

„Já, ég á von á því.“

Verða tveir ráðherrar? Verða annars vegar dómsmálaráðherra og hins vegar innanríkisráðherra eða verða báðir málaflokkar á hendi eins innanríkisráðherra?

„Þetta er eitthvað sem á eftir að leiða til lykta. Þegar þessu var skipt upp í ágúst ... þá var það nefnt að það væri til skoðunar að stofna sérstakt dómsmálaráðuneyti. Það mat svo sem breytist ekkert við þennan atburð núna. En við sjáum til hver verða næstu skref í þessu.“

Hanna Birna snúi aftur sem þingmaður

Það eru þá lokaspurningar. Annars vegar varðandi stöðu Hönnu Birnu núna. Hvernig myndirðu meta möguleika hennar á að snúa aftur í ríkisstjórnina? Nú er þetta kjörtímabil tæplega hálfnað og mikið eftir af því. Hvernig myndirðu meta möguleika hennar?

„Já, hún snýr aftur í þingið eftir áramót og verður örugglega mjög öflugur þingmaður, mikilvægur stjórnarmeirihlutanum á þinginu. Það er alls ekkert loku fyrir það skotið að Hanna Birna verði ráðherra aftur. Ég gæti mjög vel séð það gerast.“

Þú hefur talað mikið um umræðuna í landinu og hvernig hún sé ekki rökræn...

„Já.“

Þú hefur oft beitt þér í þeim átökum. En nú er þetta erfiða mál hugsanlega komið á endastöð með því að hún hættir sem ráðherra. Hvaða pólitísku áhrif telurðu að hennar ákvörðun muni hafa á stuðning við ríkisstjórnina?

„Ég á ekki von á að það hafi endilega mikil áhrif hvað það varðar, til eða frá. En vonandi verður þetta til þess að menn aðeins hugsi sinn gang og hvernig gengið er fram í umræðu á Íslandi. Menn hafa lært ýmislegt af þessu máli. Hluti af því er meðferð trúnaðarupplýsinga og þar eru menn að reyna að taka sig á, ekki bara í ráðuneytunum heldur víðar og passa upp á að það leki ekki út upplýsingar sem eiga ekki að gera það. En það er óskandi að lærdómurinn verði líka sá að menn komi ekki fram á þann hátt sem innanríkisráðherra hefur stundum mátt þola í umræðu um þetta mál.“

Einmitt. Er eitthvað að öðru leyti sem þú vilt nefna við þessi tímamót?

„Nei, ég held að það sé bara komið.“

Naut stuðnings til að halda áfram

Það var eitthvað sem að ... ég er svona að velta fyrir mér hvort mér leyfist að spyrja þig hvort þú teljir að það sé tilefni fyrir hana að hætta út af þessu máli?

„Hún naut stuðnings til þess að halda áfram. En hún mat það þannig að það væri tilefni til þess að hætta, ekki hvað síst vegna þess álags sem hún hafði mátt þola og fjölskylda hennar líka. Þannig að ég treysti henni til að meta það.“

Hafið þið framsóknarmenn áhuga á, eða er einhver í þínum röðum sem þú sérð fyrir þér að gæti orðið innanríkisráðherra?

„Hvað segirðu?“

Er einhver framsóknarmaður sem þú sérð fyrir þér að gæti stigið fram núna og orðið innanríkisráðherra, hugsanlega um áramótin?

„Við Bjarni Bene­dikts­son mun­um spá í þessa hluti áður en við förum að tjá okk­ur um það í fjöl­miðlum.“

Þá að lokum. Ég lofa því að þetta verði síðasta spurningin … Finnst þér umræðan – svo ég leggi út frá orðum þínum áðan – vera harðvítugri en þú hugsanlega bjóst við þegar þú tókst við sem forsætisráðherra? Og hefurðu áhyggjur af því hvernig þjóðfélagsumræðan er núna?

„Ég held að það sé ástæða fyrir alla til þess að hafa áhyggjur af því hvernig þjóðfélagsumræðan hefur þróast. Hún er auðvitað afleiðing af ákveðnum tíðaranda sem hefur verið ríkjandi undanfarin ár. En sá tíðarandi er ekki til þess fallinn að byggja upp og gera samfélagið betra. Það sem við þurfum á að halda er meiri rökræða um staðreyndir, um þau tækifæri sem við stöndum frammi fyrir og hvernig best sé að nýta þau. Semsagt raunveruleg pólitísk rökræða og minna af hatri.“

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert